145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[14:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tek undir með framsögumanni, að baki afgreiðslu þessa máls til 2. umr. liggur gríðarlega mikil vinna velferðarnefndar. Það ánægjulega er að það tókst að leiða fram breiða samstöðu, þverpólitíska sátt, um mjög gagngerar breytingar á frumvarpinu sem að okkar mati eru allar til bóta. Í breytingartillöguskjali sem er á fjórðu blaðsíðu má sjá þetta.

Það sem að mínu mati skiptir mestu máli er að nefndin geri breytingar sem eiga að auka líkurnar á því að meginmarkmið frumvarpsins náist um að lækka greiðslubyrði tekjulægri leigjenda, námsmanna og öryrkja, niður í fjórðung til fimmtung af tekjum. Við gerum sömuleiðis breytingar sem eiga að auka líkurnar á því að þetta kerfi verði sjálfbært til frambúðar litið og munar þar mestu um að nú eiga stofnframlög ríkisins að endurgreiðast beint í Húsnæðismálasjóð í stað þess að ganga til ríkisins. Þetta ásamt mörgum fleiri mikilvægum breytingum gerir að verkum að maður bindur vonir við að hér sé verið að leggja af stað í leiðangur sem verði tekjulægra fólki til góðs í sambandi við viðráðanlegan húsnæðiskostnað.