145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[19:56]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/?2007.

Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald í því skyni að bregðast við breytingum í samsetningu gististaða og þróun framboðs á gistingu, einkum í ljósi mikils fjölda óskráðra og leyfislausra gististaða. Lögð er til breytt skilgreining á því hvað felist í heimagistingu og er kveðið á um að sýslumenn fari með eftirlit með skráðum og skráningarskyldum aðilum sem bjóða upp á slíka gistingu. Jafnframt eru lagðar til breytingar á flokkun veitingastaða, m.a. til að fella brott rekstrarleyfisskyldu veitingastaða sem falla undir flokk I og til að hverfa frá því að lok afgreiðslutíma veitingastaðar ráði því hvort hann telst umfangsmikill eða umfangslítill.“

Skemmst er frá því að segja að atvinnuveganefnd hefur farið verulega gaumgæfilega yfir þetta mál, kallað til sín fjölda gesta og nefndin hefur einnig gert nokkrar breytingar á frumvarpinu sem við teljum að séu allar til bóta. Til dæmis er lagt til breytt orðalag á b-lið 1. gr. sem miðar meðal annars að því að hnykkja á því að ekki megi leigja húsnæðið út lengur en í 90 daga samtals á hverju almanaksári. Heildartíminn er því umræddur dagafjöldi, hvort sem viðkomandi leigir út eina eða tvær fasteignir. Nefndin leggur hins vegar til að bætt verði við skilgreininguna að húsnæðið megi aðeins leigja út fyrir allt að 2 millj. kr. á hverju almanaksári, þ.e. að þarna gildi það sem fyrr næst, 90 dagar eða 2 milljónir. Þessi breyting er veigamikil vegna þess að hún er ætluð til einföldunar fyrir skattyfirvöld og þá sem stunda þessa starfsemi.

Í öðru lagi er lagt til að mælt verði fyrir um að húsnæði þar sem boðið er upp á heimagistingu teljist ekki vera atvinnuhúsnæði í skilningi 1. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Það er því vilji löggjafans að húsnæði sem heimagisting fer fram í, eins og það hugtak er skilgreint í frumvarpinu, teljist ekki vera atvinnuhúsnæði. Með þessu er líka stefnt að því að gera greinarmun á því, betur en verið hefur, hvaða gisting er heimagisting og hvaða gisting er atvinnustarfsemi.

Leitt hefur verið að því líkum að heimagistingarþátturinn, þ.e. hluti heimagistingar í þeim aragrúa íbúða og herbergja sem eru óskráð, til dæmis hér á höfuðborgarsvæðinu, sé í kringum 25% í skilningi lagafrumvarpsins. Það þýðir að 75% þess húsnæðis sem leigt er hér á höfuðborgarsvæðinu og telur nokkur þúsund einingar, og er ekki skráð, er undir atvinnustarfsemi. Það má því segja að með því að heimagistingin sé girt af með skýrari hætti sé einfaldara að leggja til atlögu við þá sem stunda atvinnustarfsemi án þess að hafa til þess tilskilin leyfi og án þess að vera skráðir.

Í þriðja lagi kemur fram að því sé bætt við að númer sem skráningaraðili fær úthlutað skuli vera sýnilegt á viðkomandi fasteign, þ.e. þegar sá sem kaupir gistinguna kemur að fasteigninni þá er hún með númer frá yfirvöldum og sýnir það ferðamanninum fram á að viðkomandi húsnæði sé skráð. Einnig er gert ráð fyrir því að þetta númer verði sýnilegt á heimasíðum þeirra aðila sem sjá um bókanir.

Lögð er til breyting á 18. gr. í þá veru að sýslumenn sinni einnig eftirliti með notkun á leyfisnúmeri í rekstrarleyfisskyldri starfsemi, sbr. 4. mgr. 11. gr. laganna. Einnig er lögð til viðbót við 15. gr. frumvarpsins til að hnykkja á því að ekki aðeins lögreglustjóri heldur jafnframt slökkviliðsstjóri geti ákveðið kostnað af hlutaðeigandi ráðstöfunum sem og að bætt verði við tilvísun til öryggisvaktar af hálfu slökkviliðs sem mun hafa tíðkast gegn gjaldi á fjölmennum samkomum. Þarna eru menn að tala um stórar samkomur eins og, ef ég má nefna dæmi, þorrablót í Garðabæ þar sem Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur séð um gæslu og haldið uppi öryggi og séð til þess að allar rýmingarleiðir séu óheftar o.s.frv.

Á þessu ferðalagi málsins í gegnum atvinnuveganefnd fékk nefndin nokkrar ábendingar og þar á meðal frá lögreglustjóranum í Reykjavík. Þar var okkur bent á að þar sem við værum með lögin um veitingastaði opin væri gott að hnykkja á því að leggja til viðbót við frumvarpið í þá veru að bæta við ákvæði um viðurlög við því að brjóta gegn banni við nektarsýningum og því að gert sé út á nekt samkvæmt 4. mgr. 4. gr. laga. Þetta fannst okkur sjálfsagt að taka til athugunar og setja inn í frumvarpið, enda er það okkur öllum þyrnir í augum að gert sé út á nekt á veitingastöðum í Reykjavík og í landinu. Við höfum öll áhyggjur af því að oft og tíðum fylgir slíkri starfsemi mansal og annað sem við kærum okkur ekki um.

Við umfjöllun um málið kom fram að jafnvel á stærri veitingastöðum störfuðu ekki faglærðir matreiðslumenn. Nefndinni barst umsögn um málið þar sem bent var á að mikilvægt væri að virða 1. mgr. 8. gr. iðnaðarlaga. Nefndin telur mikilvægt að atvinnugreinin uppfylli kröfur um fagmenntun en nefndin hefur upplýsingar um að á vegum stjórnvalda standi yfir vinna sem tengist menntun og gæðum ferðaþjónustu.

Í stuttu máli sagt þá snýst þetta um það að í þeirri hröðu uppbyggingu sem hér hefur verið, vegna vaxtar í ferðamennsku, hafa menn verið að freistast til þess að gefa afslátt, t.d. af matreiðslu, framleiðsluþekkingu, en eins og allir vita sem þessi mál hafa gaumgæft þá getur verið stórhættulegt að hafa í vinnu á stórum veitingastöðum fólk sem ekki er fagmenntað, t.d. bara vegna hættu á krosssmiti og ýmsum slíkum áhættuþáttum. Auðvitað eigum við ekki að gera minni kröfur til þess að menn sem elda mat ofan í ferðamenn séu með iðnaðarréttindi en þeir sem múra hótelið að utan og innan og leggja í það rafmagn. Á því var hnykkt að nefndin telur ekki æskilegt að gefa afslátt af iðnmenntun.

Í athugasemdum við frumvarpið er vísað til laga um fjöleignarhús og bent á fordæmi kærunefndar húsamála fyrir því að ekki sé talin óeðlileg breyting á hagnýtingu séreignar í fjöleignarhúsi að þar fari fram atvinnurekstur. Þetta er kannski sérstaklega athyglisvert þessa dagana því að nýgenginn er héraðsdómur þar sem hnykkt var á því, varðandi 27. gr. laga um fjöleignarhús, að fyrir liggi samþykki allra eigenda áður en farið er að leigja út íbúðir í stórum fjöleignarhúsum, þ.e. að verið sé að taka hluta af fjöleignarhúsi í atvinnustarfsemi. Þessi dómur mun væntanlega ganga til Hæstaréttar og verður þá þar af leiðandi skýrari en nú er. Það verður mjög athyglisvert að fylgjast með því hvernig það mál gengur fram vegna fordæmisgildis.

Fram kom við umfjöllun um málið að ef frumvarpið yrði óbreytt að lögum brysti grundvöllur fyrir rekstri þeirra sem nú hafa leyfi í flokki heimagistingar. Þegar þau leyfi renna út munu slíkir aðilar ekki lengur heyra undir skilgreiningu heimagistingar og þurfa að sækja um sem gistiheimili og munu því þurfa að gangast undir ríkari kröfur, mögulega kostnaðarsamar eða illframkvæmanlegar. Nefndin beinir því til ráðherra að í reglugerð verði kveðið á um misríkar kröfur til gistiheimila og þá með tilliti til fjölda gesta. Ég sagði áðan að eitt af því sem væri kannski mikilvægast við þetta mál væri að girða af þá sem eru með heimagistingu án þess að vera í atvinnurekstri en nefndin segir hér, með leyfi forseta:

„Fyrir liggur að húsnæði er leigt ferðamönnum án þess að tilskilið leyfi sé fyrir hendi og án þess að af því séu greiddir skattar. Nefndin telur brýnt að átak verði gert í eftirliti með slíkri starfsemi. Nefndin bendir á að ólögleg gististarfsemi skerði rekstrarskilyrði þeirra sem fylgja lögum og að auki geti hún raskað öryggi ferðamanna. Nefndin beinir því til ríkisstjórnarinnar að ráðast í sérstakt átak til að tryggja að öll gististarfsemi fari löglega fram, m.a. með eftirlitsferðum lögreglu í húsnæði þar sem grunur leikur á um útleigu án leyfis.“

Þetta er mál sem sá sem hér stendur hefur nokkrum sinnum tekið upp, líklega við þrjá ráðherra. Ég lýsi sérstakri ánægju minni með að tekið sé fram í nefndarálitinu að nefndin sé einhuga um að slíkt átak sé gert. Það er auðvitað óþolandi fyrir okkur öll að þessi atvinnugrein, sem er að verða svo ríkjandi og áhrifarík í þjóðfélaginu, skuli byggð upp á svartri atvinnustarfsemi. Við vitum að í geiranum, þ.e. í samtökum aðila í ferðaþjónustu, hafa menn lýst áhyggjum sínum af því að hér séu aðilar óskráðir sem lúta ekki sömu lögmálum og þeir sem hafa allt sitt á hreinu. Um leið og búið er að skilgreina með skýrum hætti hvað er heimagisting, hvað er gisting í atvinnuskyni, þá er hægt að snúa sér af öllu afli — yfirvöld geta gert það, skattyfirvöld, lögreglan — að sjá til þess að þeir sem óskráðir eru verði skráðir.

Í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er unnið að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skipan ferðamála og nefndin hvetur iðnaðar- og viðskiptaráðherra til að mæla þar fyrir um að bókunarþjónusta skuli skila stjórnvöldum upplýsingum um viðskipti sín hér á landi. Þetta er gert víða erlendis, þ.e. að bókunarþjónustur skila yfirvöldum niður á nafn gististaðar þeim upphæðum sem þær hafa séð um bókun á. Þetta léttir skattyfirvöldum lífið við að hafa eftirlit, því að eins og hér kom fram áðan eru það fjölmargir aðilar sem hafa þarf eftirlit með. Þess vegna er mjög brýnt að þetta verði gert.

Að lokum vil ég segja: Það er mikið ánægjuefni að um þetta mál skuli hafa skipast og náðst svona mikil samstaða í nefndinni, en hún stendur öll að þessu nefndaráliti. Reyndar vildi svo til að Kristján L. Möller og sá sem hér stendur voru fjarverandi við afgreiðslu málsins, en við rituðum báðir undir með heimild í 4. mgr. starfsreglna fyrir starf fastanefndar Alþingis. Nefndin er einhuga um þetta nefndarálit og hvetur mjög til þess að málið fái hraðan framgang og verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er sérstök grein fyrir í breytingartillögu í átta liðum sem fylgir nefndarálitinu.