145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[20:19]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir ábendinguna frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, þetta er góð ábending. Í nefndarálitinu er talað um þessa 90 daga eða 2 milljónir og um 1. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, þ.e. að þetta teljist ekki vera atvinnuhúsnæði. Í þriðja lagi er talað um skráningarnúmerið. Er það rétt skilið að þeir sem eru í þessum heimagistingum fái líka skráningarnúmer? Mér finnst það ekki alveg ljóst þegar ég les nefndarálitið.

Svo langar mig aðeins til að spá í þetta eftirlit. Ég bý í litlu samfélagi og veit að ekki eru allir skráðir sem eru að leigja út í mismunandi langan tíma. Í lok álitsins er hvatning til ríkisstjórnarinnar um átak með eftirlitsferðum og allt það, en ég spyr: Hvernig á beinlínis að hafa eftirlit með dagafjöldanum, ef maður fer sýnilega yfir 2 milljónirnar en ekkert endilega yfir 90 dagana? Ég veit ekki hvernig ég á að segja þetta: Ég er kannski að leigja í gegnum Airbnb, ég leigi í gegnum Booking og svo er ég ekki að leigja í gegnum neinn nema tölvupóstinn minn eða eitthvað slíkt. Getum við náð utan um þetta? Það er bara það sem ég er að velta fyrir mér. Og hvernig getum við þá gert það? Það eru, eins og við þekkjum, töluverð vandræði í þessari svörtu starfsemi í litlum sem stórum samfélögum, ekki bara hér á höfuðborgarsvæðinu. Mig langar aðeins að fá fram nánari sýn þingmannsins á það.