145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[20:26]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þá hvatningu sem fram kemur hér í restina þá vorum við vissulega nokkuð óþreyjufull í nefndinni eftir því að þetta samband milli bókunarþjónustu og ríkisskattstjóra og skattyfirvalda kæmist á. Við vildum hins vegar ekki tefja þetta mál með því að bíða eftir lyktum í því máli. Þess vegna settum við þessa hvatningu hér inn og þess vegna settum við líka hvatningu inn til innanríkisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra um að eftirlitið skuli hert á þeim sem verða eftir þegar þessi girðing er komin utan um heimagistinguna. Við vonum vissulega að það hafi í för með sér að það náist að koma böndum, ef ég get orðað það þannig, á þessa starfsemi, því að líkt og ég sagði áðan þá er það óþolandi fyrir okkur öll að atvinnugrein sem stendur undir öllum þessum tekjum skuli hafa þetta orð á sér, fyrir utan eins og ég sagði áðan að Samtök ferðaþjónustunnar vilja skiljanlega ekki una við þetta ástand og hafa marglýst því yfir á fundum og í umsögnum.

Hvað það varðar að leigja út tvær fasteignir: Jú, hægt er að leigja út tvær fasteignir eins og t.d. frístundahús og íbúð sem maður býr í sjálfur og dagafjöldinn er samtals 90 dagar á hverju almanaksári.

Jú, það er erfitt að fylgjast með þessu. Við teljum reyndar, og höfum svo sem fengið upplýsingar um það, að nærumhverfið fylgist vel með. En hvað varðar spurningu hv. þingmanns um gjöld sveitarfélaga þá er það rétt að við erum hér að tala um fasteignagjöldin sem verða allmiklu hærri þegar um atvinnuhúsnæði er að ræða.