145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[20:29]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Öll atvinnuveganefnd stendur að þessu nefndaráliti og hefur góð samstaða verið um að vinna málið sem best og reyna að ná utan um fyrst og fremst heimagistingu eða deilihagkerfi sem hefur oft verið nefnt og er auðvitað ekki bara á Íslandi heldur úti um allan heim og er að vaxa víða eins og hér á landi.

Fram hefur komið að bara í Reykjavík séu um 4.000 íbúðir og herbergi í heimagistingu. Það er auðvitað vandi að gera greinarmun á milli þess hvenær um er að ræða heimagistingu og hvenær menn eru komnir út í atvinnustarfsemi. Ég tel að með því að gera þetta með þeim hætti eins og þetta mál liggur fyrir núna, að skilgreina það miklu betur, þá hafi okkur tekist að gera það. Það að hafa þetta hvort tveggja, að það miðist við 90 daga og/eða 2 milljónir að hámarki sem útleiga má vera eða hafa tekjur af, held ég að sé mjög góð lending. Það kom vissulega fram gagnrýni frá aðilum eins og Ferðaþjónustu bænda að miklu strangari reglur og leyfisveitingar fylgdu því að vera með gistingu eins og hún er hjá Ferðaþjónustu bænda og þessi tegund af heimagistingu mundi þá losna við kostnað við leyfisveitingar en hefði möguleika á að hafa álíka tekjur og sá geiri. Núna má segja að verið sé að bjóða upp á það að menn hafi þá þetta val, t.d. í heimagistingu hjá bændum, að ganga inn í þetta kerfi eins og það er, að það sé ekki flokkað undir atvinnustarfsemi heldur að það sé innan þess ramma að geta ekki nýtt sér virðisaukaskatt og hafi þá möguleika á að hafa tekjur upp að 2 milljónum, eða að vera inni í virðisaukaskattskerfinu þar sem hægt er að nýta innskattinn og getur verið hagkvæmara fyrir marga að gera það með þeim hætti sem eru kannski með ýmsan annan rekstur sem fellur undir þetta og nýtist vel að geta þá verið í virðisaukaskattskerfinu.

Ég tel að búið sé að girða þarna fyrir ýmsa gagnrýni með því sem kemur fram í breytingartillögum frá nefndinni og styrkja þá útleigu sem hefur verið mjög á gráu svæði og hefur verið gagnrýnd mikið, að þetta væri svört atvinnustarfsemi að mestu leyti. Þarna séum við bæði að auka eftirlit og flokka þetta þannig að algjörlega sé ljóst að þetta sé ekki atvinnustarfsemi en menn þurfi að vera með leyfisveitingar og númer og annað sem ýtir allt undir að það sé sýnilegra og skýrara.

Það sem mér fannst vera mjög athyglisvert í umfjöllun nefndarinnar var að þeim síðum, sem bjóða upp á heimagistingu, ýmsum bókunarsíðum, t.d. í Bandaríkjunum, er skylt að gefa upplýsingar til skattyfirvalda um hvað fer þar í gegn. Ég tel það vera eitt af grundvallaratriðum fyrir því að hægt sé að gera það hér á landi, að ná utan um þetta, fá allt upp á yfirborðið, að skatturinn hér á landi fái slíkar upplýsingar frá þeim síðum, að þær síður verði að veita upplýsingar og starfa undir þeim lögum sem eru í hverju landi fyrir sig. Það virðist vera að löggjöfin sé þannig í Bandaríkjunum að þeim sé skylt að gera þetta. Við fengum þær upplýsingar hjá skattinum að verið væri að vinna að þessu og leita eftir því við umræddar síður að veita slíkar upplýsingar. Ef það yrði ekki gert með góðu móti þyrfti að skýra íslenska löggjöf sem skyldaði síðurnar til að veita þessar upplýsingar. Í dag eru bókunarsíðurnar sjálfar að skila virðisauka og þurfa að gera skil á því, síðurnar sem slíkar, en hafa ekki hingað til verið að veita upplýsingar um þá starfsemi sem fer í gegnum síðurnar varðandi bókanir í heimagistingar hér á landi.

Ég skildi það þannig að ef þetta gengi ekki eftir með góðu eins og sagt er yrði látið reyna á það í dómsmáli og reyna á þessa upplýsingaskyldu og hvort nauðsynlegt væri að breyta lögum til að fylgja því eftir.

Mér finnst þetta vera svona kjarninn í þessu, að ná algerlega utan um þetta og að skattur af þeirri starfsemi skili sér og önnur starfsemi í gistingu, þ.e. annars konar gisting í atvinnustarfsemi, að samkeppnisumhverfi milli þeirra aðila sé með eðlilegum hætti.

Það hefur aðeins verið komið inn á að verið sé að lyfta þessu þaki upp, frá 1 milljón upp í 2 milljónir. Mér finnst það vera bara mjög eðlilegur hlutur. Það eru um 7.900 einstaklingar í dag sem gefa upp tekjur af starfsemi undir 1 millj. kr., en það eru viðmiðunarmörk í dag. Í dag er það þannig að skila má virðisaukaskatti einu sinni á ári upp að 3 milljónum, sem í því máli sem verður mælt fyrir á eftir er lagt til að verði 4 milljónir.

Eins og ég kom inn á er verið að styrkja ýmsa þætti. Nefnd hafa verið atriði um fjölbýli sem dómur hefur fallið um í héraðsdómi sem gengur örugglega upp í Hæstarétt og þar þarf að fá niðurstöðu í þeim málum sem skiptir miklu fyrir heimagistingu í fjölbýli. Gera þarf breytingar á lögum um fjölbýli ef dómur Hæstaréttar gengur á sama veg og héraðsdómur féll í því máli fyrir stuttu síðan, en það gengur út á það að ef breyta á nýtingu á íbúð þarf leyfi annarra eigenda og samþykki meiri hluta ef íbúðarhúsnæði er breytt í aðra notkun. Ég tel líka mjög nauðsynlegt að fá niðurstöðu í það mál varðandi slíka útleigu sem hefur vaxið fiskur um hrygg og ýmis gagnrýni komið á en er komin til að vera og er að mörgu leyti mjög góð vegna þess að hún léttir í sjálfu sér á mikilli uppbyggingu í gistingu, hvort sem það er hótel eða annars konar gisting, og tekur kannski af svona uppsveiflur, því að alltaf verða uppsveiflur og svo geta niðursveiflur komið. Slík útleiga er sveiflujafnandi, er kannski hægt að segja, í sjálfu sér og auðvitað bara góð nýting á húsnæði sem er til staðar. Ég tel að það sé af hinu góða og þó að ekki sé búið að róa fyrir allar víkur í þessu máli sé það þess eðlis að það þarf að vera svolítið lifandi löggjöf, eins og sagt er um mörg mál. Ég held að vandað hafi verið vel til verka í vinnu atvinnuveganefndar en ég reikna samt með að við förum yfir málið milli 2. og 3. umr. ef hnykkja þarf á einhverju sem hefur komið fram í umræðunni hér og nú. Ég er mjög ánægð með hve góð samstaða náðist um málið í atvinnuveganefnd.