145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[20:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum. Nefndin hefur fjallað ítarlega um málið um helgina og fengið til sín ýmsa gesti sem taldir eru upp í nefndarálitinu og ekki ástæða til að telja þá upp sérstaklega.

Þetta frumvarp er liður í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta. Megintilgangur frumvarpsins er að aðgreina skýrt aflandskrónueignir svo mögulegt verði að stíga næstu skref í losun fjármagnshafta og koma á frjálsum milliríkjaviðskiptum með krónur á ný án þess að fjármálastöðugleika og stöðugleika í gengis- og peningamálum verði ógnað.

Meginefni frumvarpsins er síðan rakið í nefndarálitinu og vísa ég til þess. Helstu atriðin og þau sem skipta kannski mestu máli eru skuldbindingar okkar og hvort þessar aðgerðir samræmist stjórnarskránni og þeim skuldbindingum sem við höfum.

Fjármagnshöftunum var komið á í kjölfar hrunsins haustið 2008. Því hafa aflandskrónueigendur raunverulega allt frá þeim tíma sætt töluverðum takmörkunum á ráðstöfunarrétti fjármuna sinna. Hafa ýmis lög verið íþyngjandi og allan tímann byggt á því að það hafi verið nauðsynlegt út frá almannahagsmunum. Meiri hluti nefndarinnar telur ljóst að alveg frá haustinu 2008 hafi stjórnvöldum verið rétt og skylt að grípa til aðgerða eins og þessara til að gæta að almannahag.

Efni þessa frumvarps felur áfram í sér takmarkanir á ráðstöfunarrétti eigenda þessara fjármuna. Eigendurnir njóta auðvitað verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Þess vegna er mikilvægt sem gert er í frumvarpinu, að takmörkunin sé gerð með skýrum hætti í lögum. Aflandskrónueigendur eru ítarlega skilgreindir í frumvarpinu. Það er fullljóst líka að hér eru miklir almannahagsmunir í húfi því að vitað er að ef hægt verður að ráðstafa þessum kviku eignum ef losun verður á höftunum mun það hafa veruleg áhrif á íslenskt samfélag. Það er hætta á gengishruni sem varðar hag fjölskyldna og heimila verulega miklu máli. En það er líka mikilvægt í þessu frumvarpi að ekki er gengið lengra en nauðsynlegt er. Meðalhófs er gætt og reiknað með því að menn geti farið í útboð eins og menn hafa gert í tugi skipta og fengið þannig gjaldeyri fyrir aflandskrónurnar. Það er engu verið að breyta í því. Ef menn kjósa hins vegar að taka ekki þátt í því núna hverfur eignin ekkert, það er ekki verið að taka eignina af mönnum, heldur er hún áfram háð takmörkunum. Hér er farin mjög mild leið og meðalhófs gætt þannig að meiri hluti nefndarinnar, sennilega hún öll, telur það rúmast vel innan þeirra ákvæða sem hér hafa verið nefnd.

Þessi sjónarmið eru meira og minna öll rakin í nefndarálitinu og ég ætla ekkert að fara ítarlegar í það.

Nefndin leggur til smávægilegar breytingar á 9. gr. frumvarpsins þar sem orðin „og h-lið“ sem áttu að koma strax á eftir orðunum „a–d-lið“ í 1. mgr. virðast hafa fallið á brott við lokavinnslu skjalsins og er það leiðrétt í nefndarálitinu.

Einnig lítur meiri hluti nefndarinnar svo á að óvarlegt sé að hámarksúttekt einstaklings samkvæmt 3. mgr. 12. gr., sem fjallar um undanþágu einstaklinga, sé 6.000.000 kr. í upphafi þar sem ekki liggur fyrir hversu mikið útflæði kann að verða ef heimildin er svona rúm. Meiri hluti nefndarinnar telur því rétt að stíga varlega til jarðar og leggur til að fjárhæðarmörkin verði færð niður í 1.000.000 kr. sem hægt verði að endurskoða síðar þegar menn hafa meiri vitneskju um umfangið eða fjárhæðir sem kann að vera um að ræða.

Að auki leggur meiri hluti nefndarinnar til þá breytingu á 27. gr. frumvarpsins, sem felur í sér breytingu á lögum um gjaldeyrismál, að þeir fjármunir sem eru undanþegnir takmörkun samkvæmt 9. gr. frumvarpsins verði að öllu leyti undanþegnir takmörkunum vegna fjármagnshafta. Nefndin leggur því til að vísað verði til 2. og 3. mgr. 13. gr. b í d-lið 27. gr.

Í ljósi framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. Á eftir orðunum „a–d-lið“ í 1. mgr. 9. gr. komi: og h-lið.

2. Í stað „6.000.000 kr.“ í 3. mgr. 12. gr. komi: 1.000.000 kr.

3. Á eftir orðunum „undanþegnar banni“ í 1. og 5. mgr. d-liðar 1. töluliðar 27. gr. komi: 2. og.

Undir þetta nefndarálit rita Frosti Sigurjónsson formaður, Brynjar Níelsson framsögumaður, Vilhjálmur Bjarnason, Willum Þór Þórsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Sigríður Á. Andersen, Guðmundur Steingrímsson og Valgerður Bjarnadóttir.