145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[20:16]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þá fyrst fer ég nú að hafa verulegar áhyggjur þegar sá sem flytur málið af hálfu stjórnarmeirihlutans lýsir því yfir að hann hafi engar áhyggjur af þessu. Við vitum eigi að síður að þetta mál hefur verið svona lengi í undirbúningi vegna þess að menn hafa viljað slá í gadda að það séu engar veilur á frumvarpinu. Eins og ég sagði áðan stend ég í þeim sérkennilegu sporum að vera að ræða um nefndarálit sem ég hef ekki séð. Ég átti engan kost á að sjá það vegna þess að það var ekki tilbúið þegar fundur hófst og ég beið eftir því að hv. þm. Brynjar Níelsson eða framsögumaður nefndarinnar færi rækilega í það sem ég tel helstu álitaefnin.

Það má segja að hann hafi gert það í andsvari við mig og eins og ég skil hv. þingmann er hann að segja að ekki skipti máli hverjir séu eigendur, heldur sé eðli eignanna höfuðatriði í þessum efnum. Ég gat þó undirbúið mig fyrir þessa umræðu með því að lesa álitsgerð Davíðs Þórs Björgvinssonar sem hefur setið fyrir Ísland í Mannréttindadómstólnum. Hann hafði áhyggjur af þessu. Og þá hef ég áhyggjur þó að fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins sé gjörsamlega áhyggjulaus yfir afdrifum þessa máls. Það kemur alveg skýrt fram, eða virðist gera það, í áliti Davíðs Þórs Björgvinssonar að sú staðreynd að í hópi erlendra lögaðila sem eiga eignir í Seðlabankanum hér heima kunni að vera Íslendingar sé röksemd sem geti hjálpað Íslendingum. Þannig hef ég skilið það. Fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins er hins vegar annarrar skoðunar, en ég er sömu skoðunar og dómarinn sem sat fyrir Íslands hönd í Mannréttindadómstólnum. Þess vegna segi ég: Það hlýtur að styrkja málatilbúnað Íslands ef við höfum mynd af því og einhverjar tölulegar upplýsingar um það hversu margir Íslendingar eiga (Forseti hringir.) og hve mikið í gegnum aflandsfélög í eignum í bönkunum.