145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[21:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í upphafi máls vil ég segja eitt: Ég tel ekki að við séum að taka neina áhættu með þessu frumvarpi. Frumvarpið fjallar ekki um útboðið. Frumvarpið er einungis að þétta í reynd grunnlagið áður en menn fara í næstu skref. Þau er ekki hægt að taka án þess að þær krónueignir séu skilgreindar með þeim hætti sem hér er gert.

Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að það getur vel verið umhendis að ætla þessari ríkisstjórn með það litla traust sem hún nýtur að fara í þetta verkefni. En þá ber að hugsa um annað: Seðlabankinn nýtur trausts. Ég tel að verk hans hafi sýnt fram á að menn þar vita hvað þeir eru að gera.

Svo kem ég að aðalefni máls míns: Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um að mjög brýnt er að vita hverjir það eru sem eiga kröfur á íslenska ríkið, sem eiga krónur í gegnum nafnlaust eignarhald í einhverjum skattaparadísum. En sem ég hef lesið þetta frumvarp betur rennur það allt í einu upp fyrir mér að innan þess er að finna tæki til að komast að því. Ég gerði mér enga grein fyrir því í upphafi málsins. Það kom ekki fram í framsögu hv. þm. Brynjars Níelssonar. En bent hefur verið á 14. gr. sem er um eftirlit Seðlabankans. Þar segir bókstaflega að öllum sé skylt að veita allar upplýsingar og gögn sem bankinn telur nauðsynleg, jafnvel um aðra líka. Og það kemur skýrt fram að þar verður að aflétta bankaleynd líka. Lögbundin trúnaðarskylda einstakra aðila fellur ef Seðlabankinn hyggst nýta þetta. Hvernig ætlar Seðlabankinn að nýta þetta? Það kemur fram, mér mjög á óvart, í nefndaráliti meiri hlutans, þar segir bókstaflega að þetta verði nýtt til þess að kalla eftir upplýsingum um það hverjir eru raunverulegir eigendur aflandskróna. (Forseti hringir.) Á þessu vildi ég bara vekja eftirtekt. Ég hafði ekki hugmynd um þetta. Mér sýnist að hér sé komin tillaga VG, sem ég og hv. þingmaður höfum bæði stutt, nánast endurborin en í dulargervi.