145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[22:19]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef nú ekki myndað mér skoðun á því hvort það geti skipt máli í væntanlegu dómsmáli. Ég reifaði það reyndar áðan. Þó að ég hlusti á menn mér fróðari um hluti er ég vanur að kanna þá sjálfur.

Það er þess vegna sem ég vakti athygli á því að löggjöfin hefur mjög víðtækt vald og heimildir til þess að meta hvenær almannaþörf er það rík að hægt sé að ganga á mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Ég er því ekki bjartsýnn á að það verði mikið um málaferli í þessu.

Ég held hins vegar að menn muni fara annaðhvort í útboðið eða þá að nýta sér gengið 220. En það er rétt, einhverjir munu væntanlega sitja og bíða á 0,5% vöxtum. Það er þó ekki eins mikill skaði fyrir íslenskt samfélag og það hefur verið vegna þess að það sér það hver í hendi sér að 16 milljarðar á ári er nánast jafn mikið og sú upphæð sem stefnt er að að setja í samgöngur. Vonandi hækkar sú tala á næsta ári. Það er lægri tala eða næstum því sama tala og verið er að fjárfesta fyrir hjá Isavia á Keflavíkurflugvelli. Þetta eru gríðarlegar upphæðir.

En varðandi eftirlitið, viðurlögin, þá verða menn líka að horfa á 14. gr. og lesa hana með 15. gr. Ég held að menn séu kannski of fljótir að ætla að þó að Seðlabankinn geti kallað eftir upplýsingum er ekki þar með sagt að þessar upplýsingar muni liggja fyrir almenning vegna þess að í 15. gr. segir, með leyfi forseta:

„Þeir sem annast framkvæmd laga þessara eru bundnir þagnarskyldu um hagi einstakra viðskiptamanna og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli málsins …“

Síðan þarf dómaraúrskurð til þess að skylda til að veita þær upplýsingar.

Ég vil bara vekja (Forseti hringir.) athygli á þessum atriðum en þakka góðar umræður við hv. þm. Össur Skarphéðinsson.