145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

metanframleiðsla.

572. mál
[16:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Bara örstutt innskot inn í þessa mikilvægu umræðu. Ég hygg að metan sé tvímælalaust skárra en olía og kol og þó nokkuð skárra, í það minnsta til skemmri tíma. Hins vegar þykir mér mikilvægt að við höfum í huga að metan er ekki allsherjarlausn til langrar framtíðar hvað varðar umhverfismálin. Vissulega er það gott við metan að hægt er að framleiða það hérna. Það er hægt að framleiða það með því að nota úrgang, sem er mjög gott. Það er mjög mikilvægur kostur við hliðina á til dæmis kolum og olíu og það hefur sitt að segja. Ég vil ekki draga úr mikilvægi þess.

En ef metan sleppur út í andrúmsloftið getur það orðið mjög skaðlegt til lengri tíma þannig að hugsanlega ættum við að líta á metan sem skammtímaleið til að komast yfir í aðra orkugjafa næstu áratugina þar til við komumst í þá stöðu að geta með raunhæfum hætti losað okkur við olíuna og bölvunina sem skortur á henni, og vissulega líka of mikið af henni, veldur umhverfinu. (Forseti hringir.)

Þá vil ég líka halda því til haga hér, þótt ég hafi engan tíma, virðulegi forseti, að markaðurinn getur ekki leyst vandamálið sem eru loftslagsbreytingar. Við verðum að gera það á pólitískum grundvelli.