145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

rannsókn á mánaðartekjum háskólanema.

744. mál
[16:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um rannsókn á mánaðartekjum háskólanema. Tilefni fyrirspurnarinnar var frétt sem birtist fyrr á þessari önn um rannsókn sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hafði gert á mánaðartekjum nema við Háskóla Íslands. Frá því að sú frétt birtist og ég lagði inn þessa fyrirspurn hafa framfærslumál, ekki bara háskólanema við Háskóla Íslands heldur ekki síst námsmanna erlendis, verið talsvert til umræðu í þessum sal og ýmsar athugasemdar verið gerðar við þær fyrirhuguðu breytingar sem eru á úthlutunarreglum fyrir Lánasjóð íslenskra námsmanna á næsta ári.

Mig langar hins vegar að ræða við hæstv. ráðherra um stóru línurnar í þessum málum því að sú könnun sem gerð var fyrir stúdentaráð sýndi að mánaðartekjur nema við Háskóla Íslands hefðu lækkað um 30% að raungildi á síðustu tíu árum. Rannsóknin var gerð fyrir stúdentaráð af Félagsvísindastofnun. Síðan var hún borin saman við sambærilega könnun frá 2004. Þar kemur fram að uppreiknaðar mánaðartekjur nemenda árið 2004 — ef tekjurnar hefðu sem sagt haldist og væru uppreiknaðar frá 2004, hverjar væru þær þá 2014? Jú þær ættu að vera 318.000 kr. En 2014 voru rauntekjurnar komnar niður í 218.000. Þannig að þarna munar 100.000 kr. eða 31%.

Í fréttum var rætt við formann stúdentaráðs af þessum sökum sem bendir á að í könnuninni komi líka fram að námsmenn séu farnir að taka smálán í æ meiri mæli en áður, að 60% nemenda hafi tekið yfirdráttarlán. Við vitum öll að það eru ekki hagkvæmustu lán sem hægt er að taka.

Ég vil setja þetta í það samhengi að kjör ungs fólks á Íslandi samkvæmt upplýsingum sem við höfum frá Hagstofunni eru að versna, eða sem sagt tekjurnar eru að lækka. Atvinnutekjur ungmenna 24 ára og yngri höfðu lækkað til dæmis um tæpar 37.000 kr. á mánuði að meðaltali frá aldamótum fram til 2014. Þetta eru auðvitað ekki einungis námsmenn. Þetta er líka ungt fólk á vinnumarkaði.

En miklu máli skiptir að skoða að á meðan tekjur allra annarra aldurshópa hafa hækkað á því tímabili hafa kjör unga fólksins, annars vegar undir 24 ára aldri og hins vegar á aldrinum 25–39 ára, dregist saman sem er áhyggjuefni fyrir okkur sem viljum horfa til framtíðar. Þar hljóta kjör námsmanna að skipta miklu og hæstv. ráðherra hefur boðað nýtt frumvarp til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra:

Hvernig ætlar hann að bregðast við þeim tölum sem sýna samdrátt í tekjum námsmanna um 30% (Forseti hringir.) á tíu árum? Sér hann fyrir sér einhverjar lausnir í nýju frumvarpi til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna? Munum við eiga von á því að tekið verði á framfærslu námsmanna á Íslandi á næstunni?