145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

staða fjölmiðla á Íslandi.

[14:37]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ég eins og aðrir þakka þessa umræðu.

Þann 3. maí síðastliðinn var alþjóðadagur fjölmiðlafrelsis og þá kom fram í fjölmiðlum að því miður væri það staðreynd að Ísland er á hraðri niðurleið á lista Transparency International sem metur spillingu í einstökum löndum og að Ísland væri langt á eftir öðrum Norðurlandaþjóðum á lista um frelsi fjölmiðla sem var gefinn út í aðdraganda þess dags.

Frjálsir, óháðir og öflugir fjölmiðlar sem standa vörð um almenna hagsmuni almennings eru bráðnauðsynlegir til að tryggja gagnsæi og aðhald gagnvart stjórnvöldum og koma þannig í veg fyrir spillingu. Atburðir síðustu mánaða sýna svo ekki verður um villst hversu mikilvægt það er. Þeir hafa líka dregið athygli almennings að því hversu varasöm tengsl stjórnmála og sérhagsmunahópa og fjármálamanna geta verið með tilliti til spillingar. Vald fjármálamanna sem hafa mjög mikla hagsmuni af skoðanamyndun og ákvörðunum stjórnmálamanna yfir áhrifamiklum fjölmiðlum á Íslandi er mjög mikið áhyggjuefni. Það hefur komið berlega í ljós á undanförnum missirum og allir vita að eitt öflugasta dagblað landsins er í eigu fólks sem hefur auðgast mjög mikið í krafti réttar til að nýta sameiginlega sjávarauðlind þjóðarinnar.

Fjölmiðlar í heiminum eiga víða undir högg að sækja og frelsi þeirra er víða skert að mati fréttamanna án landamæra. Þeir segja ástæðu til að hafa áhyggjur af djúpstæðri og alvarlegri skerðingu á frelsi fjölmiðla vegna alræðistilburða stjórnvalda. Það virðist vera rík tilhneiging til þess að herða tök valdhafa á fjölmiðlum í ríkiseigu. Jafnvel í Evrópuríkjum á borð við Pólland.

Það er lykilatriði fyrir íslenska hagsmuni, íslenskt samfélag og lýðræði í landinu að hafa sterkan ríkisfjölmiðil sem er hollur almenningi og engum öðrum, óháður sérhagsmunaöflum og varinn fyrir afskiptum pólitíkusa. Vil ég benda á að þar er RÚV lykilatriði. Það er ein mikilvægasta og merkasta upplýsinga- og menningarstofnun landsins og við eigum að reka hana svo sómi sé að og tryggja henni það fjármagn sem þarf til þess að hún geti sinnt sínu lögbundna skilyrði. (Forseti hringir.) Að taka hana af auglýsingamarkaði, það er allt í lagi að skoða þann möguleika en þá á líka að tryggja henni það fjármagn sem útvarpsgjaldið gerir.