145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

starfsemi kampavínsklúbba.

[15:47]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að við ráðumst að mansali og vændi með öllum tiltækum ráðum. Við erum ekki að ráðast á kampavín, við erum ekki að ráðast á klúbbastarfsemi, heldur erum við að ráðast á það þegar gert er út á vændi, nekt og þegar grunur um mansal liggur fyrir. Það er mjög mikilvæg barátta.

Í afbrotaskýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2014 kemur fram tölfræði yfir vændisrannsóknir. Árið 2011 voru þær níu, 2012 voru þær 22, 2013 voru þær 98, 2014 voru þær níu. Úr þessari tölfræði mætti lesa að vændi hefði minnkað, að það væri minni ástæða til rannsókna, en svo er ekki. Það sem virðist vera í gangi er einungis að ekki hafi verið lögð sérstök áhersla á málaflokkinn nema einmitt árið 2013.

Það er mjög mikilvægt að lögregla hafi vændis- og mansalsmál sérstaklega á sínum radar ef svo má segja. Ef grunur vaknar, eins og sömuleiðis kemur fram í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá 2015, um að ákveðnir staðir séu að einhverju leyti skálkaskjól fyrir slíka starfsemi þá er mikilvægt að bregðast við.

Það er sömuleiðis mjög mikilvægt fyrir lögregluembættin að hafa þau verkfæri sem til þarf til að hafa eftirlit með leyfisskyldum veitingastöðum á Íslandi. Ég vil eiginlega nota þetta tækifæri til að blása eld í hjörtu þeirra sem standa í þessari baráttu og ítreka þörfina á því að stutt sé við þessa baráttu.