145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

rannsóknarnefndir.

653. mál
[11:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil lýsa því yfir að ég er eins ósammála hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur og nokkuð getur verið. Mér finnst það undarleg hugsun (Gripið fram í.) að það skuli leggja sérstaka þröskulda í veg þess að Alþingi geti ákveðið að rannsaka mál og eigi að fara að samþykkja sérákvæði um slíkar samþykktir aðrar en gilda hefðbundið um ákvarðanir Alþingis hér, að það sé meirihlutastuðningur fyrir þeim, að það séu nægjanlega margir þingmenn sem taka þátt í atkvæðagreiðslu. Hver ættu að vera rökin fyrir því að leggja sérstaka steina í götu þess að Alþingi geti rannsakað mál ef svo ber undir og fyrir því er meirihlutavilji? Þetta er algerlega furðulegur málflutningur og kemur úr hörðustu átt að mér finnst. Ég er ánægður með þessar breytingar og mæli með því að menn samþykki þetta frumvarp. Það greiðir götu þess að ýmsar nauðsynlegar rannsóknir, sem augljóst er nú að þurfa að fara fram, geti farið af stað og vantar þá ekki annað upp á eftir að þessi löggjöf er komin en að tryggja nægjanlegar fjárheimildir til að hægt sé að standa vel og sómasamlega að slíkum málum í framtíðinni.