145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[12:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður flutti um margt athyglisverða ræðu. Ég get tekið undir ýmsa þætti þar eins og að hann hélt vel til haga sérstöðu íslensks landbúnaðar hvað varðar litla notkun sýklalyfja og að ekki eru notuð hér vaxtarhvetjandi hormón. Sömuleiðis get ég verið sammála því að það eru staðreyndir sem við ættum að geta nýtt okkur betur en við gerum.

Hv. þingmaður talaði jafnframt á þeim nótum um búvörusamninginn, ef ég skildi hann rétt í byrjun og aftur í lokin, að þeir væru eiginlega úrelt fyrirbæri með þeim hætti sem hér er lagt fram. Það leiðir hugann að því að fyrr í umræðunni hafði hv. þm. Haraldur Benediktsson uppi mjög áhugaverð orð um þennan samning, tollasamninginn. Efnislega sagði hann á þá leið, hv. þingmaður er í salnum og getur þá leiðrétt ef ekki er rétt með farið, að hefði hann verið á fyrri stóli sínum sem formaður Bændasamtakanna þegar þessi tollasamningur dúkkaði allt í einu upp hefði hann slitið viðræðum við ríkisvaldið eða lagt það til að viðræðum við ríkisvaldið um búvörusamning yrði slitið. Það voru athyglisverð orð.

Það leiðir mig til þess að velta fyrir mér: Hver er afstaða Sjálfstæðisflokksins til beggja þessara mála? Hún er greinilega mjög blendin þegar við heyrum svona ummæli annars vegar um búvörusamninginn og hins vegar um tollasamninginn. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson er varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Getur hv. þingmaður upplýst okkur aðeins nánar um þetta? Er það sem sagt þannig að í Sjálfstæðisflokknum séu mjög djúpstæðar efasemdir eða jafnvel andstaða á báða bóga við annars vegar búvörusamninginn og hins vegar tollasamninginn, en ekki endilega sömu menn? Hver er þá staða málsins sem stjórnarmáls? Ég er farinn að velta því verulega fyrir mér hvort hér sé ekki að teiknast upp sú staða að þessi mál til samans hafi alls ekki það brautargengi á þingi sem þarf til afgreiðslu þeirra nema að umtalsverðar breytingar verði gerðar. Getur hv. þingmaður og varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins upplýst aðeins betur um það?