145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

timbur og timburvara.

785. mál
[18:13]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum. Ef til vill var spurning mín ekki nógu skýr, en ég spurði ekki um eftirlitið með vörunni sem slíkri heldur hvort rekstraraðila væri heimilt að nota eftirlitskerfi og verklagsreglur sem hann notar nú þegar við gildistöku laganna og hvernig það mat fari fram, þ.e. á því hvort kerfin sem viðkomandi rekstraraðili býr yfir séu fullnægjandi eða ekki.

Mér finnst það skipta máli, ekki síst í ljósi þess að fram hefur komið að regluverkið er íþyngjandi í þeim skilningi sem samráðsaðilar hafa rakið í athugasemdum sínum.

Mig langar líka að spyrja ráðherrann hvort það hafi verið metið hver kostnaðaráhrif þessarar innleiðingar sé eða verði hugsanlega á neytendur. Liggur það fyrir með einhverju móti?

Loks langar mig að spyrja, af því að ég sé það ekki í mati á áhrifum frumvarpsins, hvert umfang þessa verkefnis sé í stjórnsýslunni. Getur ráðherrann slegið á það einhverri tölu eða fjölda starfsfólks eða hvað það nú er, af því að slíkt kemur ekki fram, og þá kannski í fyrsta lagi gagnvart Mannvirkjastofnun sem gegnir hér lykilhlutverki og svo hins vegar hlutverk Skógræktar ríkisins sem ráðgefandi aðila og rannsóknaraðila þegar um er að ræða mat á einstökum verkefnum?

Það eru sem sagt þessar þrjár spurningar. Í fyrsta lagi þetta með eftirlitskerfið og verklagsreglurnar, hvort þær samræmist kröfunum, hver metur það, kostnaður á neytendur og svo í þriðja lagi hversu mikið álag er á ferð á stofnanir ráðuneytisins.