145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

timbur og timburvara.

785. mál
[18:15]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér verður að leyfast að það laumist fram á andlit mitt bros af því að maður hefði ekki talið að við værum að kljást við stórvægilegt vandamál sem væri ólöglegt skógarhögg.

En það er innflutningur vörunnar sem hv. þingmaður er meira að velta fyrir sér heldur en beinlínis vandamálinu hér, við flytjum náttúrlega talsvert mikið inn af timbri.

Ég verð að viðurkenna að það hefur ekki verið metið hvað þetta mun kosta þannig fyrir þessar stofnanir. Það var ekki talið að það yrði það íþyngjandi.

En það var alveg rétt sem hv. þingmaður gat um að auðvitað getur komið að því og þá þurfum við náttúrlega að bregðast við.

Ef það kemur upp einhver vafi um að verið sé að selja vöru hér löglega þá telst það eðlileg krafa, eins og stendur á bls. 10, að rekstraraðili leiti til vöktunarstofunnar til að fá úr því skorið hvort viðkomandi kerfi sé fullnægjandi eða ekki. Það er þannig sem þetta er talið ganga fyrir sig.

Ég veit að ég hef kannski ekki svarað með algjörlega fullnægjandi hætti en svona er staðan. Við höfum frekar talið að þetta verði ekki mjög íþyngjandi fyrir þessar stofnanir. En ef það kemur í ljós þarf vissulega að taka á því.