145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stjórn fiskveiða.

786. mál
[19:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins nánar um aðskilnað veiða og vinnslu, það er ekki svo að ég sjái ekki líka ýmsa kosti sem gætu falist í að fara inn á þá braut. Ég hef oft sagt og velt fyrir mér að lágmark væri að við krefðumst algers bókhaldslegs og jafnvel rekstrarlegs aðskilnaðar þessara tveggja þátta jafnvel þó fyrirtækið væri samsett, það mundi meðal annars koma að því að leysa krónískar deilur um uppgjör við sjómenn þar sem fyrirtækin eru samsett. Að allur afli sem ekki fer þá beint til vinnslu hjá sama aðila skuli fara á markað, að það sé þá sett sem skilyrði að þú getir eingöngu farið fram hjá markaðnum ef þú ert að reka samsett fyrirtæki þar sem þú spilar saman hráefnisöflunina og vinnsluna í þágu þíns eigin rekstrar. Það verður hins vegar að horfast í augu við það að það er eitt af því sem hefur gefið íslenskum sjávarútvegi mikinn styrk og er ein af ástæðum þess að við stöndum svona sterkt að vígi á ferskfiskmörkuðunum með unnan ferskan fisk í gegnum flug o.s.frv. beint á markað í Evrópulöndum aðallega, að við höfum yfirburði yfir allar aðrar þjóðir hvað þetta varðar, að geta tryggt afhendingu á þessari hágæðavöru reglubundið og árið um kring út á það að þessir möguleikar til samstillingar eru til staðar.

En að endurskoða meðferð þess sem er til hliðar í kerfinu þá er ég alveg sammála því. Ég er reyndar þeirrar skoðunar og hef lengi verið að ef okkur tækist að byggðafesta nokkuð myndarlegan grunn veiðiheimilda almennt í sjávarbyggðunum, a.m.k. öllum þeim minni þangað til komið væri upp í stærri útgerðarstaðina, þá þyrftum við kannski ekki neitt annað. Jafnvel mætti það kerfi vera svo einfalt að það væri bara alltaf til árlegrar hlutfallslegrar uppbótar á (Forseti hringir.) þá aðila sem stunduðu útgerð frá viðkomandi byggðarlagi og ynnu þar fisk. Það mundi þá alltaf duga til þess að draga að nýja aðila, sú gulrót, þó einn færi. Þetta er það sem ég hef stundum, herra forseti, kallað (Forseti hringir.) Grenivíkurmódelið í sjávarútvegi, en ég hef ekki tíma til að útskýra það nánar.