145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stjórn fiskveiða.

786. mál
[19:42]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gleður mig ef hv. atvinnuveganefnd er orðin skapandi í því að kasta fram nýtilegum hugmyndum. Mér finnst þessi hugmynd sem hv. þingmaður nefndi allrar athygli verð, ég verð að segja það. En ég legg þá áherslu á að ekki mætti líta á það sem lausnina í málinu, að þar með væru allir orðnir sáttir, en sem úrræði til að bæta stöðuna á meðan ekki nást veigameiri breytingar fram finnst mér full ástæða til að skoða þetta, að aflaheimildirnar sem útgerðin væri skyldug til að leggja inn í þennan pott, sem væri þá frjáls uppboðspottur, væru ígildi hluta veiðileyfagjalds. Það firrti þær kannski ekki alveg greiðslu veiðileyfagjalds en gæti metist sem hluti veiðileyfagjalds. Mér finnst það alveg koma til greina. En þá veltur töluvert á því hvað við erum að tala um stóran pott. Hvað gæti þetta orðið mikið? Hann yrði að vera nýtilegur sem raunverulegur valkostur, sem útboðspottur sem byggðirnar gætu sótt í. Hugmyndin er allrar athygli verð.

Veiðigjöldin, af því að við nefnum þau, það var náttúrlega mjög sorglegt að ríkisstjórnin sem nú situr skyldi láta það verða sitt fyrsta verk að lækka þau svo verulega sem raun varð á, því að á þeirri spýtu hékk fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar og margt hefðum við getað gert við þá peninga sem annars hefðu komið inn. En auðvitað má líka hugsa sér að það gæti nýst með þeim hætti sem þingmaðurinn nefndi, að við fengjum aflaheimildir sem jafngildi eða andlag veiðigjalda.