145. löggjafarþing — 121. fundur,  30. maí 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[19:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Við lok hvers þings, eins og núna, er venjan að við horfum yfir farinn veg, lítum til baka en um leið fram á veginn og spyrjum okkur hverju við höfum áorkað og hvað bíði okkar á komandi missirum. Það er engum blöðum um það að fletta að okkur Íslendingum hefur auðnast á undanförnum árum að vinna bug á kreppunni og hefja nýtt skeið framfara og sóknar í átt til betri lífskjara, á sterkari grunni en flestir gátu spáð fyrir um þegar vandræði okkar voru hvað mest hér skömmu eftir fall fjármálafyrirtækjanna.

Það er nánast sama hvert litið er, hagvísar segja okkur að staðan hafi farið hratt batnandi, og í samanburði við aðrar þjóðir hefur Íslendingum tekist að bæta lífskjör sín hraðar en almennt gerist í öðrum löndum. Þjóðhagsspá er nýkomin út þar sem enn er spáð frekari aukningu kaupmáttar en áður var gert ráð fyrir á yfirstandandi ári. Spáð er lægri verðbólgu og enn meiri hagvexti en við höfum hingað til gengið út frá. Svona mætti lengi telja, skuldir heimilanna hafa lækkað ört á þessu kjörtímabili og eru nú komnar undir viðmið sem við höfum horft til frá því fyrir aldamót, skuldir heimilanna heilt yfir eru í lægstu gildum frá því fyrir aldamót. Það þýðir að sjálfsögðu ekki að í þessu þjóðfélagi séu ekki margir sem eiga erfitt með að ná endum saman. Það eina sem það segir okkur er að fleiri eru í betri stöðu en þeir voru áður og enn bíða okkar verkefni til að bæta stöðu þeirra sem enn hafa ekki nóg þrátt fyrir uppgang, þrátt fyrir meiri kaupmátt, þrátt fyrir hærri laun, til að ná markmiðum sínum í lífinu.

Sérstaka ánægju hlýtur að veita okkur mjög ört batnandi staða ríkissjóðs sem hefur verið rekinn hallalaust undanfarin ár. Skuldir ríkissjóðs fara ört lækkandi. Í fyrra greiddum við upp um 10% af skuldum ríkisins og stefnum að því að gera hið sama á þessu ári. Á komandi árum fara skuldir ríkisins niður í þau skuldaviðmið sem við höfum nýlega samþykkt í þinginu og verða þar með alþjóðlega algerlega samkeppnishæf sem er grundvöllur fyrir því að Ísland njóti bestu mögulegu kjara á lánamörkuðum.

Allt eru þetta merki um að okkur hafi miðað hratt fram. Okkur hefur gengið vel að vinna úr fjárhagslegum þrengingum fyrir ríkissjóð, heimilin og atvinnulífið. Svo vel hefur gengið að bæta kjör launþega, sérstaklega er ég þá að vísa í niðurstöður síðustu kjarasamninga á vinnumarkaði, að kaupmáttur launa hefur ekki vaxið jafn ört og undanfarna 12 mánuði síðan mælingar hófust. Hann hefur aukist um rúm 11%. Mér finnst ástæða til að benda á að svo mikill vöxtur í kaupmætti launa er ekki eitthvað sem við getum almennt rætt um í þinginu sem sjálfsagðan hlut. Reyndar höfum við náð að bæta stöðu heimilanna það ört, sérstaklega í þessu tilliti, með mjög miklum launahækkunum í síðustu kjaralotu, að ástæða er til að vekja á því athygli að jafn mikinn kaupmátt er ekki hægt að taka út á jafn skömmum tíma ár eftir ár. Það er ekki hægt. Til þess þarf framleiðnin í landinu að vaxa jöfnum skrefum og okkur tekst ekki að auka framleiðni í landinu um 10–12%. Þetta þýðir hins vegar ekki að við getum ekki varið þann árangur sem náðst hefur. Ég held að samtal stjórnvalda og vinnumarkaðarins þurfi í auknum mæli að snúa að því inn í framtíðina hvernig við getum varið þá sókn sem við höfum verið í og þann árangur sem við höfum náð með þeirri sókn. Hvernig getum við tryggt að inn á næstu ár verði áfram sótt í betri lífskjör fyrir launþegana í landinu á varanlegum grunni með góðri viðspyrnu?

Þá erum við kannski komin að kjarna máls og vanda íslenskra stjórnvalda í gegnum áratugina. Það hefur skort á betra traust milli vinnumarkaðar og stjórnvalda og kannski ekki bara traust heldur betri samstillingu milli þess sem gerist á vettvangi þingsins, ríkisvaldsins, sveitarstjórnarstigsins annars vegar og þess sem lögð er áhersla á á vinnumarkaði hins vegar.

Nú stendur fyrir dyrum að endurskoða frá grunni það skipulag sem vinnumarkaðurinn hefur starfað eftir fram til þessa, að tryggja t.d. opinberum starfsmönnum launatryggingu til að það launaskrið sem almennt á sér stað á almenna markaðnum verði líka fært yfir á opinbera starfsmenn án þess að það þurfi að koma til verkfalla og mikilla átaka á vinnumarkaði í hvert sinn sem semja þarf.

Í þessu sambandi skiptir einnig miklu máli að opinberir starfsmenn geti gengið út frá því að lífeyrisréttindi þeirra séu með sama hætti að byggjast upp og á almenna markaðnum og öfugt, að á almenna markaðnum sé verið að tryggja lífeyrisréttindi, grunnréttindi, með sama hætti og gert er hjá opinberum starfsmönnum. Þessi stóru, mikilvægu mál eru í deiglunni núna. Við eigum samtal um einmitt þessi mál um þessar mundir og erum með því, ásamt með öðru sem gert hefur verið í þinginu á þessu kjörtímabili, að leggja þann grunn sem ég hef hér vakið athygli á að þurfi að vera til staðar fyrir betri stöðugleika til lengri tíma.

Oft og tíðum hegðum við Íslendingar okkur um of eins og veiðiþjóð, við grípum það sem fæst í nútímanum og vonum það besta fyrir framtíðina. Nú ætla ég að segja eftir þann uppgang sem hefur verið fyrir atvinnulíf, fyrir ríkissjóð ef því er að skipta, og ekki síst fyrir heimilin: Við getum ekki haldið þeirri ræðu á lofti hér í þinginu að svona miklar framfarir verði ár eftir ár inn í framtíðina vegna þess að fyrir því er engin innstæða. Við getum hins vegar sagt að þennan árangur sé hægt að verja og halda áfram að sækja fram ef grundvallarbreytingar verða gerðar á borð við þær breytingar sem við höfum gert á opinberum fjármálum með nýjum lögum um opinber fjármál.

Góðir landsmenn. Verkefnið fram undan snýr ekki bara að samtali stjórnvalda og vinnumarkaðarins, það snýr ekki síst að því að byrja nú í ljósi bættrar stöðu ríkissjóðs að sækja fram af fullum krafti að styrkja innviðina. Við höfum dregið úr opinberri fjárfestingu á undanförnum árum, dregið úr framkvæmdum ýmiss konar, en nú er lagt upp með það í langtímaáætlun í ríkisfjármálum að bæta í að nýju. Við vitum að við höfum of margar einbreiðar brýr. Við vitum að við þurfum að ljúka byggingu nýs spítala. Við vitum að víða er þörf fyrir framkvæmdir á vegum hins opinbera, en við vitum líka að í þeim opinberu stuðningskerfum sem við ætlum að fjármagna sameiginlega eru víða göt, sprungur, sem fólk er enn að falla niður um. Við vitum t.d. að eldri borgarar bera of háan hlut af tannlæknakostnaði, langt umfram það sem við áður lofuðum. Með nýju greiðsluþátttökukerfi sem nú er verið að ræða í þinginu er byrðunum sanngjarnar skipt. Við ætlum ekki að sætta okkur við að einstaklingar sem leiti heilbrigðisþjónustu á Íslandi, sem við segjum að sé kostuð af hinu opinbera, beri á sama tíma milljóna kostnað eða kostnað á hverju ári upp á mörg hundruð þúsund krónur. Þetta ætlum við ekki að sætta okkur við og þess vegna er það mál komið fram en á sama tíma vitum við að það er æskilegt að halda áfram að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga.

Hið sama á við á öðrum sviðum. Við getum horft til lyfja. Þetta eru bara örfá dæmi sem ég nefni um svið þar sem við getum sótt fram á grundvelli miklu sterkari stöðu en við höfum fram til þessa notið. Það er kominn tími til að gera langtímaáætlanir til að gera betur á öllum þessum sviðum.

Virðulegi forseti. Ég ætla undir lok ræðu minnar að leyfa mér að velta upp þeirri spurningu hvort við þingmenn mættum ekki oftar leggja við hlustir, ekki gefa okkur fyrir fram hvað það er sem fólk æskir að við tökum á dagskrá heldur raunverulega spyrja okkur hvað það er sem þjóðin kallar eftir að við sinnum í þinginu. Þess er skemmst að minnast að forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sagði ástæðuna fyrir því að traust fjaraði undan Evrópusambandinu að Evrópusambandið væri farið að skipta sér um of af daglegu lífi fólks. Kannski gerum við of mikið af því í þinginu, kannski erum við fullsjálfhverf. Ég efast um að dagskrárliðurinn fundarstjórn forseta sem hefur orðið tímafrekur á þessu þingi eins og oft áður hafi skilað miklu til þjóðarinnar. Í aðdraganda kosninga er ekki úr vegi að staldra við og spyrja sig hvort við hlustum nægilega vel.

Að því sögðu óska ég landsmönnum gleðilegs sumars.