145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[14:41]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna og get tekið undir að margt í frumvarpinu er ágætt og ætti að geta náðst ágætissamstaða um ýmis þessara efnisatriða, sem snúast helst um að gera ákveðnar úrbætur á gildandi lögum. Þarna er margt í takt við þá skýrslu sem efnahags- og viðskiptanefnd skilaði til þingsins.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um tvennt. Annars vegar er það sem hann nefndi áðan sem mér fannst afar áhugavert sem snerist um að reyna að meta umfang aflandsviðskipta innan þess sem við getum kallað skattaundanskot. Því hefur verið slegið fram af hálfu ríkisskattstjóra að skattaundanskot eða skattsvik nemi um 80 milljörðum á ári. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að skýra það nánar hvort ætlunin sé að vinna þá greiningu áfram og meta þá umfang aflandsviðskipta innan þess?

Hitt sem mig langar að spyrja um, sem ég hefði auðvitað gjarnan viljað sjá í frumvarpinu, eru reglur um þunna eiginfjármögnun. Við hæstv. ráðherra áttum samtal um það í nóvember síðastliðnum þar sem hann upplýsti að unnið væri að slíku frumvarpi innan ráðuneytisins. Mig langar (Forseti hringir.) að inna hæstv. ráðherra eftir því hvar sú vinna stendur.