145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[14:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég get ekki annað sagt um það hvers vegna málið hafi ekki áður komið fram en það að þessi þekking hefur verið að byggjast upp og svo fáum við tilefni til að safna þessum ábendingum saman. Ábendingarnar koma frá skattrannsóknarstjóra, frá ríkisskattstjóra, við fáum ábendingar frá tollstjóra. Svo búum við auðvitað yfir þekkingu í ráðuneytinu og sækjum frekari þekkingu í alþjóðlegt samstarf. En varðandi það hvort við séum að fara bestu mögulegu leið get ég svo sem ekkert fullyrt um það. Ég vek athygli á að við erum ekki að fara þá leið að banna og gera refsivert. Við erum að veita leiðbeiningu og við erum að lágmarka ávinninginn, við erum að tryggja í skattframkvæmd að við beitum öllum úrræðum til að afhjúpa leyndina. Það er leiðin sem við erum að velja með frumvarpinu og hún hefur verið mörkuð í fyrri lagasetningu.