145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[15:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna því frumvarpi sem hér er lagt fram. Ég tel það mjög mikilvægt á margan hátt. Það er gleðilegt að sjá ríkisstjórnina reka af sér slyðruorð í atriðum er varða það að færa skattyfirvöldum fullnægjandi úrræði til að takast á við, eins og kostur er, eignir í aflandsfélögum en líka aðra þætti. Ég nefni þar sérstaklega þau ákvæði sem gera ráð fyrir að auka aðgengi að upplýsingum um eignastöðu gjaldenda. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að margsinnis hefur verið bent á að heimildir skattyfirvalda að þessu leyti séu miklu lakari hér á landi en í grannlöndunum. Það er satt að segja alveg með ólíkindum að ekki hafi verið fyrr brugðist við í því efni. En það er fagnaðarefni að það sé gert nú.

Það er ánægjulegt að sjá að fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins skuli treysta sér í þær breytingar sem eru lagðar til. Ég vil þó vekja máls á fáeinum þáttum sem ég tel athugunarverða fyrir nefndina í vinnu hennar. Í fyrsta lagi það sem hæstv. fjármálaráðherra rakti áðan er varðar upplýsingaskyldu fjármálastofnana, lögmanna og annarra ráðgjafa. Það er vissulega hægt að leiða að því líkur að þetta geti haft áhrif að því leyti að þeir íslenskir aðilar sem vilja koma eignum í skjól leiti ráðgjafar annars staðar en hér á landi. En ég held að það sé samt sem áður ófært annað en að stíga þetta skref vegna þess að það eru allar líkur á því að reglur verði líka hertar í grannlöndum okkar á næstu árum. Vatnið finnur sér alltaf leið, en ég held að það verði erfiðara og erfiðara og mikilvægt fyrir okkur að ganga á undan með góðu fordæmi.

Það er líka athugunarefni í mínum huga, sem ég mundi vilja velta upp og biðja nefndina að athuga, sú lenging sem er á heimildum til endurákvörðunar og til álagningar sekta úr sex árum í tíu ár vegna fjármuna sem geymdir eru í lágskattaríkjum. Nú sjáum við fréttir sem benda til þess að hér hafi um áratugaskeið þeir sem stóðu í milliríkjaviðskiptum verið í aðstöðu til að safna upp eignum erlendis og gert það. Þær eignir liggja þar enn þá óskattaðar. Ég velti fyrir mér: Af hverju á að setja mörkin við tíu ár ef um er að ræða einbeittan brotavilja til að halda eignum undan íslenskri skattalögsögu, jafnvel á fyrri tíð líka í blóra við lög um gjaldeyrismál? Ég velti því upp hvers vegna fyrningartíminn er tíu ár ef brotaviljinn er ljós. Af hverju er hann ekki lengri og heimildir til endurákvörðunar lengri? Hvers vegna eiga menn að komast í stikk ef þeim tekst að halda þessu leyndu í tíu ár?

Í annan stað vildi ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra sérstaklega og óska eftir því að hann í lok umræðunnar víki að því hvort þær breytingar sem nú eru gerðar á að auka aðgengi að upplýsingum um eignastöðu gjaldenda séu það umfangsmiklar að þær geri aðstöðuna hér núna sambærilega við það sem hún er í grannlöndunum. Er raunverulega brugðist við öllum athugasemdunum sem er rakið í greinargerð með frumvarpinu að hafi verið að finna í skýrslu Ríkisendurskoðunar um innheimtu opinberra gjalda frá árinu 2011 og tilmælum til Ríkisendurskoðunar, til fjármála- og efnahagsráðuneytis, sem hafa verið ítrekuð 2014? Er núna brugðist við því að öllu leyti? Er verið að koma því í það horf að það sé sambærilegt við þær heimildir sem við höfum í grannlöndunum?

Ég ætla ekki að lengja umræðuna að óþörfu en lýsi ánægju með frumvarpið að öðru leyti. Ég tel hins vegar rétt að nefndin gefi sér tíma til að fara yfir það í nefndarvinnu í sumar þannig að hægt verði að vinna það til loka í ágústmánuði.