145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[15:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil segja það í upphafi, sem kom fram í andsvari hjá mér áðan, að það er ánægjulegt að hæstv. ráðherra leggi fram þetta frumvarp þótt ég geti líka tekið undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að ég hefði viljað sjá gengið lengra og segi líka guð láti gott á vita í þessum málum. Fyrst og fremst er hér um að ræða breytingar til að skýra og skerpa núgildandi ákvæði laga, bæði í ljósi fenginnar reynslu en líka eru lagðar til breytingar sem komu fram frá þeim aðilum sem fyrst og fremst starfa við þessi mál, til að mynda á fundum hv. efnahags- og viðskiptanefndar, um það hvað mætti betur fara. Það er þó fjarri því að allar þær ábendingar sem koma fram í þeirri skýrslu, sem eru auðvitað fyrst og fremst yfirlit yfir þær ábendingar sem komu fram, séu teknar til greina. Ég lít svo á að hér sé um ágætis fyrstu skref að ræða og tek svo undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa talað að það er mikilvægt að fara vel yfir málið í nefndinni.

Hér er t.d. lögð til, eins og hæstv. ráðherra fór yfir, frekari útfærsla á CFC-ákvæðunum sem voru lögfest á síðasta kjörtímabili, út frá fenginni reynslu. Það eru líka lagðar til breytingar á heimildum til endurákvörðunar skatta og fyrninga skattalagabrota og málsmeðferðaratriði, sem er allt í takt við það sem kom fram hjá þeim aðilum skattrannsóknarstjóra, ríkisskattstjóra og fleiri aðila sem komu á fund efnahags- og viðskiptanefndar.

Ég nefndi áðan sérstaklega það sem ekki er fjallað um í frumvarpinu. Ég vil nefna að í skýrslu efnahags- og viðskiptanefndar eru reifuð ýmis atriði sem ástæða er til að skoða. Þar ber fyrst að nefna þunna eiginfjármögnun. Það er mér hugleikið af því við erum búin að vera með það til umræðu í þinginu í talsvert mörg ár. Lagt var fram frumvarp þingveturinn 2013–2014 sem beinlínis fór til umsagnar í efnahags- og viðskiptanefnd og niðurstaða nefndarinnar var að vísa því máli til ríkisstjórnarinnar. Ég verð að segja að það hefur valdið mér vonbrigðum hvað sú málsmeðferðartillaga sem var samþykkt vorið 2014 hefur í raun og veru lítið að segja og það vekur upp spurningar. Þegar þingið hefur lagt með þessum hætti þverpólitíska áherslu og nær samstöðu um að leggja eigi áherslu á mál finnst mér slæmt að það skuli ekki ganga hraðar.

Hæstv. ráðherra hefur farið yfir það í ræðu að máli skiptir að fylgja því sem er að gerast í almennri aðgerðaáætlun OECD sem hann nefndi áðan, BEPS-áætluninni, en það breytir því ekki að önnur ríki innan Evrópu og innan OECD hafa verið að lögfesta slíkar reglur. Um hvað snýst þetta? Þetta snýst um ákveðna tegund skattsniðgöngu sem lýtur að stórfyrirtækjum. Við þekkjum óteljandi dæmi um það á alþjóðavísu. Um það hefur verið fjallað í íslenskum fjölmiðlum þar sem stórfyrirtæki hafa orðið uppvís að því að flytja inn risahagnað, skattlaust, frá ríkjum til lágskattasvæða. Þeir gjörningar hafa verið varðir með því að þeir séu löglegir og stjórnendur hafi þær skyldur einar að hámarka hagnað eigenda. Það hafa komið upp slík mál í tengslum við fyrirtækjakeðjur á borð við Google, Apple og Starbucks og þetta hefur verið rætt í tengslum við alþjóðleg fyrirtæki sem starfa á landinu og hefur verið fjallað um til að mynda álfyrirtæki. Mér finnst full ástæða til að við tökum á því máli.

Ég nefni það aftur sem ég nefndi í mjög stuttu máli áðan að ég hef lagt fram þetta frumvarp að nýju, endurskoðað út frá umsögnum sem bárust til efnahags- og viðskiptanefndar á sínum tíma, þannig að búið er að breyta algjörlega uppsetningu málsins til þess að taka tillit til þeirra umsagna. Í ljósi þess að hæstv. ráðherra nefnir að eðlilegt sé að hv. efnahags- og viðskiptanefnd gefi sér tíma til að fara yfir það frumvarp sem hann leggur fram, og ég get tekið undir það, held ég að full ástæða sé til þess að við fáum að mæla fyrir þessu frumvarpi líka áður en þing er úti, svo að að nefndin geti tekið það til skoðunar samhliða þessu máli. Ég fagna því að búið er að vinna verulega í málinu út frá umsögnum. Lýst hefur verið yfir eindregnum vilja þingsins til að taka á málinu og ef við fáum að mæla fyrir slíku frumvarpi verður áhugavert að fá sýn fjármálaráðuneytisins á það, hvort ráðuneytið telji að það sé komið í það horf að hægt sé að lögfesta slíkar reglur.

Það er að sjálfsögðu margt annað sem þarf að skoða. Auðvitað er rétt að þetta er alþjóðlegt viðfangsefni. Þetta er ekki þannig að hægt sé að bjarga öllu í þessum málum með því að gera lagabreytingar á Íslandi. Ég held að við þingmenn í þessum sal séum öll eða flest sammála um að mikilvægt sé að eiga alþjóðlegt samstarf. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra að það er mikilvægt. Upplýsingasamningarnir eru mikilvægir. Gagnsæið er mikilvægt. En eigi að síður er að mínu viti hægt að skoða fleiri atriði en nefnd eru í frumvarpinu.

Ég nefni til að mynda hvort ástæða sé til að fara yfir frumvarp sem nú liggur inni í efnahags- og viðskiptanefnd um ársreikninga, hvort þar sé hugsanlega ástæða til að gera ákveðnar breytingar í takt við þann anda sem er í þessu frumvarpi og lýtur að því hvaða kröfur við gerum til frágangs slíkra reikninga.

Það er líka mikilvægt, eins og hæstv. ráðherra nefndi, að hér er í raun og veru lögð sú krafa á ráðgjafa að þeir skili upplýsingum sjálfkrafa. Það eru ekki lögð til refsiákvæði. Ég skil alveg að það er eitthvað sem er eðlilegt að ræða og meta, hvaða afleiðingar slíkt gæti haft. Ég velti fyrir mér hertum viðurlögum t.d. við því að skila ekki tilskildum gögnum, sem var eitt af því sem var rætt fyrir nefndinni og í raun eru rýmkaðar heimildir til álagningar og áætlunar tekna, hvort ástæða sé til að skoða viðurlögin sérstaklega.

Hafandi sagt þetta vil ég aðeins ræða upplýsingarnar. Ég nefndi það í ágætum umræðum um daginn um framtíðarsýn fyrir skattkerfið, sem voru áhugaverðar að mörgu leyti, að æ fleiri benda á í hinni alþjóðlegu umræðu um skattamál að skattkerfin hafi margvíslegan tilgang. Þau hafa þann tilgang að afla tekna fyrir samfélög á hverjum tíma. Þau hafa þann tilgang að mati margra, og fólk er ekki alveg sammála um það, að jafna tekjur, jafna kjör og til þess erum við oft með þrepaskipt skattkerfi, til þess erum við með skatta sem eiga að snúast um að jafna kjör, eins og virðisaukaskatt á matvæli annars vegar og aðrar neysluvörur hins vegar. Það er ákveðin jöfnunarhugsun í því og svo getum við deilt um hvernig nákvæmlega við náum því takmarki og hversu langt við ætlum að ganga í því.

Þriðja markmiðið, sem er orðið æ meira áberandi í alþjóðlegri umræðu um skattamál, t.d. á vegum OECD, er að skattkerfið verði líka að tryggja ákveðið gagnsæi. Við erum með þessar tillögur og mér finnst við þurfa við að velta því fyrir okkur hvort við teljum nægilega langt gengið í því að ná því markmiði. Getum við gert betur? Ég nefni þau mál sem ég talaði um áðan um t.d. þunnu eiginfjármögnunina. Ég nefni líka kröfur um ársreikninga. Ég nefni einnig þær kröfur sem hafa verið uppi um svokallaða endanlega eigendur í hluthafaskrá. Þetta hefur verið rætt í þinginu, hvar það ætti heima í lögum og hversu langt við getum gengið hér á landi í slíkum kröfum á eignarhaldi. Það hefur verið bent á að það sé flókið af því að hægt sé að fara í kringum það ef þetta eru ekki alþjóðlegar reglur sem ganga jafnt yfir. En mér finnst þetta vera eitthvað sem við eigum að skoða mjög nákvæmlega, ef við viljum að hlutverk skattkerfisins sé líka gagnsæi.

Það hefur verið bent á að í því kerfi sem við höfum byggt upp á undanförnum árum og áratugum höfum við í raun ekki mikil gögn um það hvernig auðurinn dreifist á milli fólks, en fræðingar, hagfræðingar, sinna því æ meira, horfa á hvernig auðæfi heimsins skiptast á milli manna. Misskiptingin er orðin raunverulegt rannsóknarefni fræðimanna í háskólum um allan heim. Þá er dálítið áhugavert að sjá hversu erfitt er að afla slíkra gagna. Thomas Piketty, franski hagfræðingurinn, hefur beinlínis orðað það svo að bankaleyndin og hinar miklu reglur um bankaleynd, sem sérstaklega eru tengdar við lágskattasvæði og aflandsfélög, séu aðeins önnur leið til að gefa vissum einstaklingum möguleikann á að velja sér skattprósentu. Að sjálfsögðu geta þeir einstaklingar og fyrirtæki skilað sköttum sínum og gjöldum ef þeir kjósa svo, en leyndin skilar því að þeir hafa um það val. Það er þetta ógagnsæi og leynd sem við verðum að vinna gegn í alþjóðlegu samstarfi okkar, en líka hér heima.

Ég mun fara yfir þetta frumvarp með opnum huga með það að markmiði að við séum að ganga lengra í gagnsæinu. Ég tel mikilvægt að nefndin noti þá vinnu sem fram undan er til þess að skoða hvað fleira sé hægt að gera. Ég legg áherslu á að við gerum eitthvað í þunnri eiginfjármögnun þar sem vilji þingsins hefur legið fyrir frá vori 2014. Við erum með ágæta tillögu sem við ættum væntanlega að geta nýtt sumarið í fara yfir og fá samstarf við ráðuneytið um, þannig að við nýtum þann vilja sem hér er til að gera jákvæðar breytingar í átt til gagnsæis og ljúkum þessu máli í haust. Vonandi verður gengið lengra en lagt er til af hálfu hæstv. ráðherra. Ég vonast til þess að hv. nefndarmenn í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem stóðu að þeirri skýrslu sem við skiluðum til þingsins um daginn, séu mér sammála um að við setjum þetta mál í forgang og vinnum vel að því þannig að því verði lokið í haust.