145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl.

791. mál
[20:11]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum í 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl. Það er rétt sem fram kom í máli hæstv. forseta að málið er flutt af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Allir nefndarmenn voru því sammála.

Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar í samræmi við ákvæði laga um rannsóknarnefndir að fram fari rannsókn á þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupum á 45,8% eignarhluta ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf.

Rannsóknin verði falin einum manni sem forseti Alþingis skipar skv. 1. mgr. 2. gr. laga um rannsóknarnefndir. Hann dragi saman og búi til birtingar upplýsingar um málsatvik og aðkomu einstakra aðila að þátttöku þýska bankans í kaupunum með tilliti til þeirra upplýsinga sem kaupendur veittu íslenska ríkinu sem seljanda og stofnunum þess.

Rannsókninni ljúki svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 31. desember 2016.

Samhliða rannsókninni fari stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd yfir fyrirliggjandi gögn og upplýsingar um umfjöllun og ályktanir eftirlitsaðila um söluna á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., samanber ályktun Alþingis frá 7. nóvember 2012.

Á grundvelli niðurstöðu rannsóknarinnar, sbr. 1. mgr., og að lokinni yfirferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sbr. 4. mgr., leggi nefndin mat á hvort hún geri tillögu um frekari rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., samanber fyrrgreinda ályktun frá 7. nóvember 2012 þar um.“

Hæstv. forseti. Þetta er tillagan eins og hún liggur fyrir. Ég ætla að lesa fyrstu línurnar í greinargerð, með leyfi forseta:

„Tilgangur tillögunnar er að leiða í ljós hver hafi í raun verið þátttaka þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupum á 45,8% eignarhluta ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. og jafnframt að skapa grundvöll fyrir nánari afmörkun á ályktun Alþingis frá 7. nóvember 2012, um rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., samanber ákvæði laga um rannsóknarnefndir með síðari breytingum.“

Síðan vil ég vísa í greinargerð sem fylgir þingmálinu þar sem birt er bréf frá umboðsmanni Alþingis sem lagði til við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og þar með Alþingi, að þessi rannsókn færi fram.

Ég vil taka það fram að allir nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis voru þessu sammála. En í umræðu um málið hafa einnig fléttast aðrar tillögur, þar á meðal frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, um rannsókn á einkavæðingu banka, hinni síðari einkavæðingu eins og það hefur stundum verið nefnt. Ég hef sagt það, og það var rætt í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að eðlilegt væri að það mál og önnur sem upp kunna að koma fái skjóta þinglega meðferð og væri eðlilegt að mál af þessu tagi kæmu sem fyrst fyrir þingið. Ég væri því síst mótfallinn að það gerðist núna fyrir þinglokin eða í þessari viku. Ég hefði verið því fylgjandi að þessi mál hefðu fylgst að. En ég þakka fyrir að þetta mál komist hér á dagskrá og legg til að það gangi til síðari umr.