145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[22:11]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að upplýsa um hvar ráðherrann er staddur þá hefur hann verið í heimsókn hjá kollega sínum í Færeyjum, ráðherra menntamála þar. Ég geri ráð fyrir að hann verði viðstaddur hér í þinginu, en forseti getur kannski svarað því betur hvort og hvenær ráðherrann verður hér til að eiga samtal við hv. þingmenn.

Já, ég hafði uppi mjög stór orð um að það væri ekki til fyrirmyndar að mál bæri að með þessum hætti. Við erum hins vegar í þeirri stöðu að komið er að þinglokum og ekki búið að tryggja lagagrundvöll undir þær ráðstafanir sem nauðsynlegt er að skjóta undir þær greiðslur sem greiða ber úr jöfnunarsjóði og heimildir til handa jöfnunarsjóði til að innheimta á móti frá sveitarfélögunum samkvæmt samkomulaginu. Þetta er sama mál frá því í fyrra nema hér liggur fyrir nýtt samkomulag sem var undirritað 13. apríl. Svo virðist sem ekki hafi gefist tími eða náðst að koma málinu eftir hefðbundnum leiðum inn í þingið frá því að samkomulagið var undirritað. Þegar þessi beiðni kemur til allsherjar- og menntamálanefndar er alveg ljóst að okkur er ekkert skemmt yfir því. En stundum verður maður einfaldlega að gera það sem nauðsynlegt er og í ljósi stöðunnar erum við hér, fulltrúar meiri hlutans í nefndinni, flutningsmenn þessa máls.