145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[22:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir margt sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði hér í fyrra andsvari. Í fyrsta lagi er ekki við hv. flutningsmann málsins að sakast, formann allsherjar- og menntamálanefndar, en auðvitað slær það mann einkennilega að samkomulag var undirritað 13. apríl 2016, það var fyrir sex vikum. Hæstv. ráðherra nefnir þetta mál ekki á nafn við nokkurn mann hér í þinginu fyrr en undir lok síðustu viku og ætlast þá til þess að hv. allsherjar- og menntamálanefnd flytji hér mál sem hefði verið algjörlega fyrirsjáanlegt, af því að við erum búin að ræða það áður, oft áður. Og það er algjörlega hárrétt, sem hér hefur komið fram, að hæstv. ráðherra hafði þá uppi mjög góð orð um að heildarendurskoðun á lögum um tónlistarnám væri við það að ljúka.

Hér hafa verið hafðar sérstakar umræður, m.a. af þeirri sem hér stendur, við hæstv. ráðherra þar sem hann hefur verið inntur eftir þessu og alltaf er þetta á leiðinni. Nú kemur á daginn, að því er virðist, að það á að framlengja þetta samkomulag, sem snýst fyrst og fremst um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga til að unnt sé að standa við samkomulagið frá 2011. En eftir því sem lesa má í fjölmiðlum verður engin heildarendurskoðun á lögum um tónlistarmenntun. En það hefur ekki komið fram hér í þingsal. Það sem við lesum um í fjölmiðlum er að fyrirhugað sé að stofna hér nýjan framhaldsskóla um tónlist sem kann að vera mjög góð hugmynd. Það kann að vera góð hugmynd, en við vitum bara ekkert um það því að við höfum ekkert heyrt um það og hæstv. ráðherra hefur ekki séð ástæðu til þess að koma hingað og gera þinginu grein fyrir fyrirætlunum sínum. Ég geri bara alvarlega athugasemd við það.

Í frumvarpinu kemur fram að samráð hafi verið haft við tiltekna aðila, þ.e. fjármála- og efnahagsráðuneyti, innanríkisráðuneyti, jöfnunarsjóð og Samband íslenskra sveitarfélaga. Ég spyr: Er búið að ræða við tónlistarskóla, tónlistarskólakennara? Er nefndin búin að (Forseti hringir.) kalla þá til sín? Hver er hugur þeirra til þeirrar framtíðarsýnar sem við hv. þingmenn köllum hér eftir?