145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[22:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég býð hæstv. ráðherra velkominn heim frá Færeyjum. Það er mikilvægt að hann geri okkur grein fyrir þeirri framtíðarsýn í málefnum tónlistarmenntunar sem hann hefur áður haft orð uppi um að hann vilji glaður ræða við þingið. Það er auðvitað mjög óheppilegt að þetta samkomulag var undirritað um miðjan apríl 2016 og sex vikum síðar er hv. allsherjar og menntamálanefnd að mæla fyrir frumvarpi. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað hefur eiginlega tafið málið og hvers vegna kom það ekki strax fram í frumvarpsformi?

Það er líka mikilvægt að við fáum skýrslu frá hæstv. ráðherra, hvernig sem hann hyggst flytja hana, í ljósi þess að hann hafði uppi þau orð í nóvember 2014 að frumvarp til heildarlaga um tónlistarmenntun væri á lokametrunum og mundi líklega koma fram á vorþingi 2015. Í þessu frumvarpi er sagt að enn sé unnið að undirbúningi þess, þannig að þetta hlýtur að verða allvel undirbúið.

Það sem kemur ekki fram í frumvarpinu er hvaða samráð hefur verið haft við fulltrúa heildarsamtaka (Forseti hringir.) tónlistarskóla, tónlistarskólakennara og skólastjóra. Allt eru þetta upplýsingar sem hv. þingmenn þurfa að fá á hreint. (Forseti hringir.) Það er spurning hvort hæstv. ráðherra nýti það tækifæri sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir lagði til og komi fyrstur á mælendaskrá og geri ákveðna grein fyrir þessu og við getum þá metið hvort það þurfi frekari skýrslugjöf frá hæstv. ráðherra.