145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[23:15]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg sjálfsagt að það sé þungt í mönnum vegna þessara mála af því að hér er auðvitað mikið undir og heilmikill skaði hafði orðið vegna þess hvernig borgarstjórnin í Reykjavík hafði túlkað samkomulagið, eitt allra sveitarfélaga, og valdið gífurlegu tjóni. Sú nefnd sem hv. þingmaður vitnaði til í annars ágætri og yfirvegaðri ræðu sinni komst einmitt að ákveðinni niðurstöðu um ákveðna framtíðarsýn um ákveðna leið sem farin yrði. Sú leið er akkúrat sú sem ég hef rætt hér, sem er sú að setja af stað skóla sem ríkið kemur að því að fjármagna. Það kemur síðan í ljós að ekki þarf lagabreytingar til þess að fara þá leið.

Varla er það nú svo að hv. þingmaður ætli mér að koma hér með lagabreytingar í máli sem ekki þarfnast lagabreytinga við. Ég heyri að hv. þingmaður er vel lesinn í öllum þeim umræðum sem hér hafa farið fram og að hann getur fundið þess stað að við höfum talað hér um lagabreytingar, en þegar niðurstaðan í samtalinu á milli sveitarfélaganna og ríkisins verður síðan sú að þessi leið verði farin þá tökum við þá ákvörðun og vinnum samkvæmt henni. Ég læt mér í léttu rúmi liggja þó að hv. þingmaður komi hér og haldi svona góðar og yfirvegaðar ræður í málinu, það er ágætt. Það sem skiptir mig máli, og hann má kalla mig verklausan í þessu efni, er að gera sem ég get gert til að laga þann skaða sem orðinn er (Forseti hringir.) með þeirri leið sem ég hef verið að fara. Ég vil vitna til ágætrar greinar. Einn höfunda hennar, ágætur maður, Jakob Frímann Magnússon, sem ég veit að hv. þingmaður þekkir, taldi (Forseti hringir.) að sú leið sem lagt er upp með (Forseti hringir.) væri reyndar mikið framfaraspor. Það er það sem skiptir máli, þ.e. að málið verði leyst og að farsæl lausn liggi þar til grundvallar.