145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

staða og rekstrarvandi framhaldsskólanna.

[15:47]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. málshefjanda fyrir þessa umræðu og ráðherra fyrir svörin þó að mér þyki þau svolítið klén; ég er búin að heyra þau nokkuð oft. Aukin menntun og hæfni bætir lífskjör allra. Menntun hvers og eins er ævistarf, bæði í skólum og vinnu. Því miður endurspeglast sú sýn að mínu mati ekki í athöfnum hæstv. menntamálaráðherra eins og væntanlega hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni því að þá værum við ekki hér að tala um þessa stöðu.

Undanfarið hef ég talað við marga sem stýra framhaldsskólum, bæði skólameistara og kennara. Það er óhætt að segja, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, að þeir hafa allir verulegar áhyggjur af starfi og fjárhagsstöðu framhaldsskólanna miðað við þær aðstæður sem þeim eru búnar. Formaður Skólameistarafélags Íslands, eins og hér var rakið, segir nánast vonlaust að reka framhaldsskólana hallalaust miðað við núverandi forsendur. Það hefur staðið til að endurskoða þetta reiknilíkan ansi lengi og launastikuna sem hefur verið bitbein og ekki endurspeglað raunverulegan launakostnað, en hann er jú það sem er að sliga framhaldsskóla landsins sem ná ekki endum saman. Það hefur heyrst, og væri nú áhugavert í lokin að heyra frá hæstv. ráðherra hvort það er rétt, að í kringum 60% skólanna sjái fyrir sér taprekstur miðað við núverandi aðstæður. Því ef skera á niður í launum minnkar námsframboð sem þýðir jú fækkun nemenda, það er kannski ætlun ráðherrans.

Ekki er síður rík ástæða til að hafa áhyggjur af starfinu innan framhaldsskólanna, bæði hinu faglega starfi sem tengist menntuninni en líka öðru faglegu starfi eins og náms- og starfsráðgjöf og öðrum stuðningi, t.d. við nemendur með sérþarfir. Það er mikið áhyggjuefni hvernig á að sinna þessum stuðningi svo að vel sé. Svo ekki sé nú talað um almennan aðbúnað, tæki og tól sem mjög víða eru orðin úrelt, svo að nemendur geta ekki nýtt sér nýjustu tækni, sem er óboðlegt árið 2016.

Helsti kostur íslenska framhaldsskólakerfisins hefur verið sveigjanleiki en því er verr og miður að flestar breytingar sem staðið hefur verið að af hálfu þessa hæstv. menntamálaráðherra ganga í þá átt að þrengja starfsemi skólanna, gera þá einhæfari og ósveigjanlegri en þeir hafa verið og draga þannig úr möguleika þeirra til að veita fjölbreyttum nemendahópi haldgóða menntun.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann hyggist koma í veg fyrir að þessi þrönga og óásættanlega staða framhaldsskólanna (Forseti hringir.) dragi úr þjónustu þeirra og hvernig hann ætli að koma til móts við einstaklinga með sérþarfir innan framhaldsskólanna. Og hefur ráðherra tölur yfir það hversu mikil þörfin er á endurnýjun tækjabúnaðar í framhaldsskólum?