145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

búvörusamningur með tilliti til umhverfis- og náttúruverndar.

[16:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er mikilvægt að landbúnaðurinn þróist í góðri sátt við náttúruna og byggi á sjálfbærri nýtingu á landsins gæðum, að unnið sé gegn beit á viðkvæmum svæðum og örfoka landi sé hlíft. Í búvörusamningnum er kveðið á um svæðisbundinn stuðning, en í því tilliti er ekki tekið tillit til ástands landsins eða landnýtingarsjónarmiða, sem þó hefði verið æskilegt að gera til að beina sauðfjárræktun frekar á svæði sem gróðurfarslega séð eru betur fallin til sauðfjárræktar. Hægt hefði verið að horfa til þess að tengja gæðastýringu til framleiðenda á þann veg að hún væri skilyrt með einhverjum hætti sjálfbærni þannig að hún ynni gegn gróður- og jarðvegseyðingu. Bændur eru í raun einir öflugustu landverðirnir og það er í þeirra hag að nýting á beitilandi sé sjálfbær.

Þeir framleiðsluhvatar sem eru í búvörusamningunum, geta haft neikvæð umhverfisáhrif sem vinnur gegn landnýtingu og loftslagssjónarmiðum. Mikilvægt er að stuðla að orkuskiptum í sveitum landsins, efla skógrækt og kornrækt og vinna með bændum með jákvæðum hvötum að nýtingu á auðlindum landsins. Búvörusamningurinn á að stuðla að framþróun í greininni með sjálfbærum og vistvænum hætti, framleiðendum og neytendum til hagsbóta.

Framleiðsla á búvörum í nálægð við neytendur skiptir miklu máli og að stuðlað sé að sjálfbærni. Kolefnisfótsporum, eins og þau eru kölluð, fækkar með því að draga úr því að flytja landbúnaðarvörur heimshorna á milli.

Ég tel að hægt sé að ná þeim markmiðum með bændum því að þeir eru öflugir talsmenn náttúrunnar í landinu. En það hefði vissulega mátt gera betur í þessum samningum, það er hægt að gera betur, hvort sem það tengist búvörusamningunum eða ekki því að þetta er sameiginlegt hagsmunamál allra landsmanna.