145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[21:39]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki frá því að mögulega gæti einhvers misskilnings í forsendum minnihlutaálits þess sem hv. þingmaður var að kynna. Nú er það svo að ákvæðið sem kallað hefur verið ákvæði um samsköttun var leitt í lög af síðustu ríkisstjórn í desember árið 2009. Ákvæðið heimilar samsköttuðum aðilum sem eru hjón eða fólk í staðfestri sambúð sem hefur óskað eftir samsköttun, að sá aðili sem hefur hærri tekjurnar megi nýta ófyllt skattþrep hins aðilans sem er í lægra skattþrepi. Hér er fullyrt í nefndaráliti minni hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar að þetta leiði til einhvers konar mismununar vegna þess að tekjuhærri heimili geti nýtt sér þetta og þannig setji þessi regla í uppnám meint markmið um að bæta fyrst og fremst hag millitekjuhópa.

Nú vil ég spyrja hv. þingmann hvort það hafi orðið í grundvallaratriðum breyting á afstöðu hennar til þessa ákvæðis frá árinu 2009 þegar hún m.a. leiddi þetta ákvæði fyrst í lög þegar tekjuskattsþrepið var tekið upp. Svo væri áhugavert að heyra með hvaða hætti þetta gagnast nákvæmlega tekjuháum heimilum, vegna þess að þessari reglu er einmitt ætlað (Forseti hringir.) að jafna aðstöðu tveggja heimila sem hafa jafn háar (Forseti hringir.) tekjur en ólíka innbyrðis tekjudreifingu. Tekjurnar eru jafn háar.