145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[11:27]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég styð það frumvarp sem hér er um byggingu nýs Herjólfs og vona sannarlega að tekist hafi vel til hvað hönnun varðar. Ég styð þetta mál m.a. vegna þess að það kom fram við 1. umr. málsins, þegar hæstv. fjármálaráðherra flutti það í andsvörum við mig, að ef svo færi, sem ég tel alveg eins víst að gerist, að einkaframkvæmdarútboðið yrði allt of dýrt, og horfið yrði frá því og ferjan byggð á hefðbundinn hátt með fé úr ríkissjóði, yrði það ekki gert með því að skerða aðra fjármuni sem settir eru til samgöngumála á Íslandi. Sú lélega samgönguáætlun sem nú liggur fyrir, sem er samgönguáætlun um lítið sem ekki neitt og Íslandsmet í að gera nánast ekki neitt, þolir það ekki að fjármunir verði færðir þar á milli. En það kom skýrt fram í svari hæstv. fjármálaráðherra að ef einkaframkvæmdarútboðið verður of dýrt mun koma (Forseti hringir.) nýtt fé til að fjármagna hefðbundin kaup ríkisins á ferjunni. Og það styð ég, það er grundvöllur fyrir samþykki mínu.