145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

útlendingar.

728. mál
[12:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er eins og hv. þingmaður sagði hér á undan, þetta er mál sem enginn er sennilega fullkomlega sáttur við. Þetta er lending eftir mjög mikið og verðmætt, og að mörgu leyti sögulegt, starf. Það er ótrúleg heppni, þori ég að fullyrða, að okkur takist að ljúka þessu máli með þessari sátt. Það er ýmislegt í frumvarpinu sem ég mundi hafa öðruvísi sjálfur. Ég veit að fleiri í þessum sal eru þeirrar skoðunar. Ég ætla að greiða atkvæði með breytingartillögu hv. allsherjar- og menntamálanefndar, sem ég vil þakka fyrir mjög gott starf; og sérstaklega formanni nefndarinnar, hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur. Ég vil líka taka það fram að hluti af því að styðja þetta mál er á þeim forsendum að gildistakan er við næstu áramót. Því er hægt að bregðast við þegar upp kemur gagnrýni sem ég býst fastlega við að gerist, á þeim tíma sem (Forseti hringir.) eftir er af þessu ári. Ég fagna vinnubrögðunum og þakka hv. þingmönnum sem komu að þessu máli.