145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[19:23]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég þakka öllum þeim sem hafa komið að þessu máli í velferðarnefnd. Ég vil sérstaklega óska hæstv. heilbrigðisráðherra til hamingju með þennan áfanga og þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir mikinn skilning á því stóra verkefni sem fram undan er. Það er gott að við getum verið sammála um stóra hluti í þinginu. Það er gott að við erum sammála um að við viljum öflugt heilbrigðiskerfi. Það er gott að við erum sammála um að okkar veikasta fólk á ekki ofan á vandræði sín að þurfa að horfast í augu við að þurfa að greiða óyfirstíganlega háa reikninga. Við hér inni getum verið stolt af skrefinu sem við stígum í dag. Ég veit alla vega að Pétur minn heitinn, Pétur H. Blöndal, væri afskaplega ánægður gæti hann verið með okkur í dag. Til hamingju.