145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

aðgerðaáætlun gegn súrnun sjávar á norðurslóðum.

160. mál
[20:16]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Haraldur Einarsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa spurningu. Verkefni nefndarinnar var afmarkað. Það var einungis að fjalla um súrnun sjávar á norðurslóðum. Við fórum ekki yfir eða gerðum mat á því hvort losun koltvíoxíðs væri af mannavöldum eða af náttúrulegum völdum. Umsagnirnar voru ekki á þá vegu að skera úr um hvort það væri. Spurningar nefndarmanna um tillöguna voru heldur ekki í þá veru, en ég held að í þessu máli alla vega skipti það ekki öllu máli. Það sem kom fram er að hafið er að súrna. Ástæðan er aukið koltvíoxíðmagn í andrúmsloftinu og við því telur nefndin að þurfi að bregðast með einum eða öðrum hætti. Hér er lagt til að aukið verði í rannsóknir af því að við eigum gríðarlega mikið undir, miklar auðlindir, og það er mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga að við vitum eitthvað um þessar auðlindir okkar og vitneskjan sé byggð á rannsóknagrunni.