145. löggjafarþing — 131. fundur,  8. júní 2016.

kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

815. mál
[21:21]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni greiðum atkvæði gegn þessari lagasetningu til að segja hingað og ekki lengra við þessa ríkisstjórn sem ítrekað kemur hingað með lagasetningu á kjaradeilur, slær met í lagasetningu á vinnudeilur og veikir þar með kerfisbundið samningsrétt launafólks hér á landi.

Í stað þess að horfast í augu við þann veruleika sem þarf að horfast í augu við til að styrkja grundvöll heildarsamkomulags á vinnumarkaði ákveður þessi ríkisstjórn að sniðganga verkalýðshreyfinguna á þessum degi.

Með þessu nei-i viljum við í Samfylkingunni hvetja ríkisstjórnina til að svara kröfum verkalýðshreyfingarinnar, horfa til félagslegs stöðugleika, ekki síður en hins efnahagslega, í heildarsamkomulagi á vinnumarkaði og fara að horfast í augu við og kljást við ólíkar kröfur vegna launaþróunar síðustu ára (Forseti hringir.) sem er rót þeirrar deilu sem við fjöllum um hér. Sú deila er ekki að fara neitt (Forseti hringir.) þó að menn setji þessi lög í dag. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)