145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

minnst látins fyrrverandi alþingismanns, Kristínar Halldórsdóttur.

[15:04]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Hinn 14. júlí síðastliðinn lést á hjúkrunarheimilinu Mörk Kristín Halldórsdóttir, fyrrverandi alþingismaður. Hún var 76 ára að aldri og hafði átt við vanheilsu að stríða um nokkurt skeið.

Kristín Halldórsdóttir var fædd í Varmahlíð í Reykjadal 20. október 1939. Foreldrar hennar voru Halldór Víglundsson, smiður þar, og Halldóra Sigurjónsdóttir, húsmæðrakennari og síðar skólastjóri Húsmæðraskólans á Laugum. Í móðurætt Kristínar voru margir alþingismenn sem létu að sér kveða í þessum sal.

Kristín Halldórsdóttir lauk stúdentsprófi við Menntaskólann á Akureyri árið 1960 og ári síðar prófi frá Kennaraskóla Íslands. Hún var kennari við Digranesskóla í Kópavogi tvo vetur, 1964–1966, og starfaði lengi sem blaðamaður, fyrst við Tímann 1961–1964 en síðar við Vikuna 1972–1974 og var ritstjóri þess blaðs í fimm ár, 1974–1979.

Er stofnað var til Samtaka um kvennalista fyrir kosningarnar 1983 varð Kristín ein þriggja kvenna sem náðu kosningu til Alþingis, sem landskjörinn alþingismaður í Reykjaneskjördæmi. Hún var endurkjörin í því kjördæmi 1987 en sagði af sér þingmennsku tveimur árum síðar, 1989, í samræmi við reglur samtakanna, en varð þá starfskona þeirra hér á Alþingi í sex ár. Hún var á ný kjörin alþingismaður 1995 og enn fyrir Reyknesinga. Í því umróti sem varð undir lok þess kjörtímabils, árið 1999 þegar þingflokkur Kvennalistans var lagður niður, var Kristín utan flokka um tíma en gekk svo í þingflokk óháðra sem síðar myndaði Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Var hún í framboði fyrir þann flokk og síðar framkvæmdastjóri flokksins og þingflokksins 2001–2005.

Á þingferli sínum var Kristín þrívegis formaður þingflokks Kvennalistans og 1. varaforseti neðri deildar á þinginu 1986–1987. Meðan hún var utan þings var hún formaður Ferðamálaráðs í fjögur ár.

Án nokkurs vafa markaði framboð Samtaka um kvennalista árið 1983, og kosning þriggja þingmanna þeirra, þáttaskil í stjórnmálasögunni og frá þeim tíma jókst hlutfall kvenna á Alþingi stórum svo að nú er það með því hæsta á þjóðþingum lýðræðisríkja. Frá þeim tíma var ljóst að allir stjórnmálaflokkar yrðu að ætla konum aukinn hlut á framboðslistum sínum. Nafn Kristínar Halldórsdóttur verður um alla framtíð tengt þessum skilum og þeim árangri sem fylgdi í kjölfarið.

Kristín sat lengst af þingferli sínum í fjárveitinganefnd, síðar fjárlaganefnd, en um tíma í umhverfisnefnd, auk annarra nefnda. Í umræðum og tillöguflutningi lét hún jafnréttismál og umhverfismál í víðum skilningi mest til sín taka. Hún sat á 11 löggjafarþingum alls, en starfstími hennar á Alþingisreitnum nær yfir meira en 20 ár.

Kristín Halldórsdóttir var lipur í öllu samstarfi á vettvangi Alþingis, hófsöm í málflutningi, góður ræðumaður og vel máli farin. Hún hafði drjúga og margþætta reynslu í sjóði sínum er hún var kjörin til þings. Hún unni mjög náttúru Íslands, var mikill ferðagarpur, hestamaður, og gerðist einn helsti málsvari náttúruverndar er á leið svo að eftir var tekið.

Við sem áttum samleið með Kristínu Halldórsdóttur hér á Alþingi minnumst hennar fyrir skýran málflutning, dugnað og vandvirkni í þingstörfum, en ekki síður fyrir glaðlyndi hennar og ljúflyndi.

Ég bið þingheim að minnast Kristínar Halldórsdóttur, fyrrverandi alþingismanns, með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]