145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

munnleg skýrsla forsætisráðherra um stöðu þjóðmála, ein umr.

[16:25]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að hefja þessa umræðu um stöðu þjóðmála og öðrum ræðumönnum hér í umræðunni.

Fyrir rúmum þremur árum við myndun nýrrar ríkisstjórnar undir forustu Framsóknarflokksins lofuðum við að ný sókn mundi hefjast í þágu lands og þjóðar. Sú sókn hefur sannarlega gengið vel líkt og kom fram í ræðu hæstv. forsætisráðherra. Leiðarljós okkar í gegnum allt kjörtímabilið hefur verið að bæta hag heimilanna í landinu og efla atvinnulífið með aukinni verðmætasköpun í þágu almennings. Í okkar huga var augljóst að heimilin væru undirstaða og drifkraftur þjóðfélagsins. Til þess að virkja hann yrðum við að taka á skuldavanda heimilanna sem hrun fjármálakerfisins orsakaði. Leiðrétta yrði skuldirnar vegna verðbólguskots á árunum 2007–2010 og beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Við þyrftum að breyta kerfinu til að koma í veg fyrir að fortíðarvandi yrði að framtíðarvanda og byggja þyrfti til framtíðar með því að efla atvinnulífið. Þannig mundum við tryggja vöxt og velferð til frambúðar með nægri atvinnu. Án vinnu væri hvorki vöxtur né velferð.

Úrtölumenn voru á hverju strái. Úrtölumenn sem vissu það eitt að ekkert væri hægt að gera, engu væri hægt að breyta. En við létum ekki segjast. Við neituðum að taka undir með úrtölumönnum um að ekkert frekar væri hægt að gera fyrir heimilin í landinu eða til að efla atvinnulífið. Við létum ekki segja okkur að Íslendingar gætu ekki sjálfir haft stjórn á eigin efnahag. Einföld sannindi sem svo sannarlega hafa skilað miklum árangri. Skuldir heimilanna hafa ekki verið lægri síðan 1999 og skuldastaða þeirra er nú með því lægsta á Norðurlöndunum. Á sama tíma hefur verðbólga verið í sögulegu lágmarki, nú í ágúst undir 1%, og þrátt fyrir miklar launahækkanir hefur ríkt lengsti stöðugleiki verðlags í áratugi sem er einstakt í íslenskri hagsögu. Kaupmáttur hefur aukist vel yfir 20% á kjörtímabilinu, hraðar en dæmi eru um. Baráttan gegn skuldunum hefur skilað því að á næstu árum munu skuldir ríkissjóðs lækka og nema um 30% af landsframleiðslu, þökk sé vel heppnaðri áætlun um losun hafta, stöðugleikaframlögunum og skynsamlegum ríkisrekstri.

Allt þetta hefur gefið okkur svigrúm til að endurreisa velferðarkerfið eftir erfiðan niðurskurð hrunáranna. Á þessu kjörtímabili höfum við aukið útgjöld til almannatrygginga um rúma 55 milljarða kr. til að bæta hag lífeyrisþega. Ég hef kynnt nýtt frumvarp um breytingar á almannatryggingum í samræmi við tillögu nefndar sem mætir þeirri gagnrýni sem komið hefur fram á núverandi kerfi þar sem við einföldum og sameinum bótaflokka, leggjum til ein skerðingarmörk, hvetjum til sveigjanlegra starfsloka og hefjum innleiðingu starfsskyldumats fyrir öryrkja, breytingar sem áætlað er að kosti rúma 5 milljarða kr. á fyrsta ári. Nýtt húsnæðiskerfi mun gerbreyta aðstæðum á leigumarkaði með lögum um almennar íbúðir sem unnin voru í einkar góðu samstarfi við verkalýðshreyfinguna og Alþingi allt. Áætlað er t.d. að ný húsnæðissjálfseignarstofnun ASÍ og BSRB muni geta afhent eina nýja fullbúna blokk á mánuði til útleigu frá og með árinu 2018. Fyrstu lóðirnar verða afhentar í ár sem og fyrstu stofnframlög ríkis og sveitarfélaga. Nýtt húsnæðisbótakerfi fyrir leigjendur eykur svo verulega stuðning við fjölskyldur með lágar og meðaltekjur en það tekur gildi um áramótin. Í dag kynntum við svo enn eitt framfaraskrefið fyrir heimilin með frumvarpi um varanlegt fyrirkomulag húsnæðissparnaðar og eitt stærsta skref sem tekið hefur verið í átt að afnámi verðtryggingar fasteignalána frá því að hún var sett á.

Ísland á að vera fjölskylduvænt samfélag, fjölskylduvænt land þar sem börn búa við öryggi og jöfn tækifæri. Á þeim grunni liggur nú ný fjölskyldustefna fyrir Alþingi og frumvarp um endurreisn fæðingarorlofskerfisins er nú í umsagnarferli. Þar er lagt til að greidd verði 100% af launum að 300 þús. kr. á mánuði, hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi verði 600 þús. kr. á mánuði og fæðingarorlof verði lengt í skrefum upp í 12 mánuði.

Góð staða heimilanna, atvinnulífsins og hins opinbera gefur okkur sannarlega tækifæri til að auka velferðina enn frekar á næstu vikum, næstu mánuðum og næstu árum. Við höfum alltaf haft trú á íslensku samfélagi og getu þjóðarinnar til að vinna sig út úr hvaða vanda sem er fái hún tækifæri til þess. Við getum því verið stolt af stöðu mála núna á Íslandi líkt og hæstv. forsætisráðherra sagði. Það skiptir sannarlega máli hverjir sitja við stjórnvölinn. Veldur hver á heldur.