145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er gaman að hlusta á þingmenn stjórnarflokkanna koma hér upp á víxl og eigna sínum flokki öll meint afrek ríkisstjórnarinnar. Nú eru þetta ekki lengur sameiginleg afrek stjórnarflokkanna heldur er þetta allt Framsóknarflokknum að þakka þegar framsóknarmenn tala og Sjálfstæðisflokknum að þakka þegar sjálfstæðismenn tala. Það er greinilega að styttast í kosningar.

Margur hyggur mig sig, segir gamalt íslenskt máltæki og vísar til þess að mörgum verður það á að ætla að allir hugsi eins og þeir og allir breyti eins og þeir. Mér hefur orðið hugsað til þessa gamla spakmælis undanfarna daga þegar tilteknir þingmenn stjórnarflokkanna, einkum þó formaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafa fyrir fram útmálað hættuna á því að núverandi stjórnarandstaða muni taka þingið í gíslingu og kæfa allt í málþófi. Ja, margur hyggur mig sig. Ætli það sé ekki að gerast hér að hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni verði það á að ætla að allir muni gera eins og hann og hugsa eins og hann gerði á síðasta kjörtímabili og ástunda það skipulagða niðurrifs- og eyðileggingarstarf sem þáverandi stjórnarandstaða ástundaði? Þessi ummæli eru þeim mun undarlegri í ljósi þess að síðastliðið vor sýndi þingið styrk sinn í því að vinna mjög málefnalega að framgangi mikilvægra mála og stjórnarandstaðan lagði þar ekki síst sitt af mörkum með því að lagfæra og betrumbæta mörg stjórnarfrumvörp þannig að þau næðu tilgangi sínum og yrðu afgreiðslutæk. Þingið var starfsamt og hér var heilmikil uppskera. Þannig að lítil rök verða sótt í nýlega reynslu fyrir því að tala með þessum hætti.

Ég hygg að einn félagi okkar hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði að það væri mikilvægt að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þvældist ekki mikið fyrir þingstörfunum á næstu dögum. Kannski ætti hv. þingmaður bara að fara í frí í einhverjar (Forseti hringir.) vikur. Hann gæti þá boðað endurkomu sína í íslensk stjórnmál í þriðja sinn. Eins og kunnugt er: Allt er þegar þrennt er.