145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[18:05]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu og góða yfirferð. Fyrst vil ég segja að það er rétt að af þessu verður þjóðhagslegur ávinningur. Ef þær spár ganga t.d. eftir að ef 60% af þeim nemendum sem eru ekki núna að taka námslán taki síðan styrkinn og nái þeim námsárangri þá kemst Ísland reyndar í hóp þeirra þjóða sem eru að ná hvað bestri námsframvindu. Þá erum við að tala um að kostnaðurinn nálgist rúmlega 2 milljarða, þannig að það er langleiðina í þann þjóðhagslega ávinning sem við höfum verið að nefna hér.

Hvað varðar fjármögnunarkostnaðinn þá er það reyndar þannig að þessi tala, 2,5%, er kannski ekki beint fundin út frá fjármögnunarkostnaði sjóðsins, heldur er horft til þess hver er fjármögnunarkostnaður ríkisins, sem var ef ég man rétt um 2,8%. Við ákváðum að festa þetta í 2,5% sem er fyrir neðan þann kostnað, svo kemur hálft prósent ofan á.

Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir að ef við horfum síðan á stöðu sjóðsins og þau vandamál uppsöfnuð sem felast í gömlum fjármögnunarkostnaði, sem var allt of hár, kallar það mjög á, og við höfum verið að „signalera“ það t.d. til Seðlabankans, að endurfjármagna þurfi sjóðinn með eðlilegum hætti, en það mundi ekki hreyfa akkúrat við þessari ákvörðun. Aftur á móti hefur verið bent á og ég tek undir það, ég held að það sé rétt og vona að nefndin skoði það, að í staðinn fyrir að festa 2,5% þá sé hægt að setja það sem þak. Þannig að ef fjármögnunarkostnaður ríkisins fer niður, sem er þá gólfið í þessu, þá njóti sjóðurinn þess og námsmenn.

Síðan vil ég segja um ýmislegt annað sem hér var nefnt, ég kem kannski að því á eftir. Varðandi uppsópið sem hv. þingmaður kallaði svo vil ég segja að það er alveg rétt að verið er að fara yfir lánasjóðinn og verið er að þétta ákveðna hluti. En hugsunin bak við það er að nýta betur fjármagnið þannig að við getum betur stýrt því til að hafa styrkinn hærri. Eftir því sem minni agi er hvað þetta varðar þá kostar það fjármuni, það er þá eitthvað sem fer út annars staðar, og þá muni þess sjá stað í því að það verður lægri styrkur. (Forseti hringir.) Það er auðvitað það sem liggur kannski að baki þeim áherslum sem hv. þingmaður benti á.