145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[18:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra skýringarnar. Þær eru allar til glöggvunar. Það verður gott að sjá nefndina fara vandlega yfir þetta mál. Ég held hins vegar að gæta megi þess við svona breytingar að menn glati ekki því góða sem hefur einkennt þetta kerfi og skapað okkur sérstöðu. Það er auðvelt að segja að við viljum ekki að menn taki eða sem sagt — ég vil nú kannski orða þetta aðeins öðruvísi. Það er eftirsóknarvert að við höfum getað gert fólki kleift að sækja menntun í merkustu menntastofnunum vestan hafs og austan. Það hefur verið stoð fyrir íslensk nýsköpunarfyrirtæki að þar er ekki einsleitur hópur, sérfræðingar útskrifaðir allir úr sama skólanum, heldur kemur fólk með þekkingu úr mjög ólíkum áttum og leggur saman. Við höfum grætt á því sem samfélag. Við megum ekki gleyma því að þessi fjölbreytni hefur byggt okkur upp sem samfélag og við höfum grætt á henni. Ég skil alveg að hæstv. ráðherra hafi áhuga á uppsópinu svona til þess að spara pening og finna matarholur hér og hvar með eðlilegum innheimtuháttum, en sumir hlutir eins og t.d. tekjutengingin er ómetanleg. Við upplifum það mörg á starfsævinni að fara upp og niður í tekjum. Það góða sem hefur verið í þessu kerfi er að þegar árar vel hjá manni og maður fær mikið þá greiðir maður námslánin hratt upp. Ég sé t.d. fram á það núna í haust eða næsta vetur að klára öll námslánin mín. Maður getur verið þakklátur fyrir það að hafa fengið til þess tækifæri, en það var líka mjög gott að þurfa ekki að borga meðan illa áraði.