145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[21:58]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þá umræðu sem farið hefur hér fram í kvöld og í dag. Ég tel hana hafa verið málefnalega. Hér hafa ýmis sjónarmið verið reifuð og ég tel að málinu hafi þokað ágætlega vel fram í umræðunni og að meginatriði þess hafi verið leidd fram þannig að gagn sé að.

Ég þarf ekki að ítreka það sem ég sagði í framsöguræðu minni eða hef sagt í umræðum í andsvörum en vil þó benda á og ítreka að það sem hér er á ferðinni er breyttur lánasjóður í grundvallaratriðum. Þar skiptir kannski einna mestu að yfirgnæfandi meiri hluti nemenda sem tekur námslán, 85% þeirra, mun verða í þeirri stöðu gangi frumvarpið fram og verða að lögum, sem ég sannarlega vona, að greiðslubyrðin af námslánum lækkar. Ég held að það skipti verulega miklu máli. Ég vísa líka til þeirra útreikninga sem stúdentaráð Háskóla Íslands hefur lagt fram sem eru mjög vandaðir og reyndar vil ég segja að ánægjulegt er að sjá hversu alvarlega stúdentahreyfingarnar hafa tekið þetta mál og lagt gríðarlega vinnu í að brjóta það til mergjar. Mér finnst það til fyrirmyndar enda erfitt að finna hóp sem hefur meiri hagsmuni af því að skilja nákvæmlega þetta frumvarp og hvaða afleiðingar það hefur. Ég vísa enn og aftur til þeirra útreikninga og umfjöllunar sem þar er komin sem ég tel mjög málefnalega.

Eins vil ég vekja athygli á einum þætti sem ekki hefur verið mikið til umræðu. Það styrkjakerfi sem um er að ræða sem að vissu leyti mætti jafna við það að veita laun fyrir nám, þ.e. standist námsmaður námskröfur fái viðkomandi námsmaður laun, mun líka standa til boða þeim nemendum sem eru á framhaldsskólastigi í iðn- og verknámi. Það mun skipta verulega miklu máli og er að mínu mati ein stærsta aðgerðin sem dæmi eru um til að auka áhuga og aðgengi að iðn- og verknámi, en það er verkefni sem við höfum talað um árum og áratugum saman án þess að ná nokkrum markverðum árangri. Ég tel að hér sé á ferðinni alveg gríðarlega mikilvægt hagsmunamál, ekki bara fyrir nemendur heldur fyrir samfélagið allt. Og af því að hér hefur verið rætt um námsval og afleiðingar þessara breytinga á námslánakerfinu vil ég ítreka að ég held að það sé á misskilningi byggt að ætla að það dragi úr námsvali ef svo stór hópur námsmanna er í þeirri stöðu eftir að námi lýkur að greiðslur vegna námslána munu lækka og greiðslubyrðin verður bærilegri, þá á það ekki með nokkrum hætti að verða til þess fallið að draga úr námsvalinu. En með því að styðja með þessum hætti við iðn- og verknámið umfram það sem hingað til hefur verið gert, og reyndar langt umfram, tel ég að það muni geta haft verulega góð áhrif hvað varðar heildarnámsval nemenda á Íslandi.

Eins hefur ekki verið mikið ræddur sá möguleiki að námsmenn geti frestað, þ.e. hægt er að fresta greiðslum vegna íbúðakaupa um fimm ár. Ég held að það létti mjög undir þegar kemur að fyrstu íbúðakaupum að geta frestað hluta afborgananna í fimm ár og þannig gert þeim sem eru að fara í sín fyrstu íbúðakaup og eru með námslán á bakinu auðveldara fyrir að fara í gegnum greiðslumat svo dæmi sé tekið.

Það eru ýmsir aðrir þættir sem við höfum kannski ekki rætt mikið í dag sem er nauðsynlegt að ræða í hv. nefnd, í 2. umr. og síðan í 3. umr. og svo þegar við leiðum málið til lykta í atkvæðagreiðslu að lokum. Ég tel nægan tíma til að ljúka því og ég er ekki alveg sannfærður um eða sammála því uppleggi sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir lagði hér upp eða sammála skilningi hennar á þingræðinu eða samsetningu þingsins. Það er bara annað mál og við ræðum það síðar.

Virðulegi forseti. Enn og aftur þakka ég fyrir þessa umræðu. Ég tel hana hafa verið mjög gagnlega og áhugaverða og hlakka til að taka þátt í umræðunni áfram í þinginu þar til málið verður leitt til lykta.