145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[15:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar og vil nota tækifærið og lýsa yfir ánægju minni með að við séum komin á þann stað að við séum farin að tileinka okkur þessi vinnubrögð. Það ætti að þykja fullkomlega sjálfsagt að við værum með langtímaáætlun í ríkisfjármálum og ekki í rauninni bara ríkisfjármálum heldur opinberum fjármálum því að hér er verið að vísa til fjármála sveitarfélaganna líka. Samkomulag hefur náðst milli ríkis og sveitarfélaga um stóru línurnar á næstu árum. Jafn sjálfsagt og þetta ætti að vera er þetta í fyrsta skipti sem við gerum þetta og erum þá að læra af þeim þjóðum sem við viljum bera okkur saman við þegar kemur að opinberum fjármálum. Ég vonast til þess, virðulegi forseti, að við munum sjá breytta menningu þegar kemur að opinberum fjármálum. Þrátt fyrir að við verðum vonandi áfram ósammála um ýmsa hluti og tökumst á í pólitíkinni er enginn vafi að það er best fyrir íslenska þjóð ef menn ná saman um aga og langtímahugsun í opinberum fjármálum. Allir munu hagnast á því og það er enginn vafi á því að það er grunnur að stöðugleika í landinu og ætli hann sé ekki eitt stærsta, ef ekki stærsta, hagsmunamál almennings og ekki síst þeirra sem minna hafa á milli handanna.

Einhver kynni að spyrja: Af hverju langtímaáætlun? Ég held að það sé einfaldast frá því að segja að það er bara almenn skynsemi. Það er skynsamlegt að setja sér áætlanir til langs tíma sem ég held að sé eiginleiki allra þeirra sem hafa náð árangri, t.d. í fyrirtækjarekstri, en ekki síður þegar kemur að opinberum rekstri.

Sömuleiðis yrði mjög mikilvægt fyrir þá aðila sem sinna hinum ýmsu störfum hjá hinu opinbera, t.d. forstöðumenn og stjórnendur stofnana, að geta litið lengra fram í tímann en til eins ár í senn og gert áætlanir í takt við það. Þetta er upptaktur að slíkum vinnubrögðum.

Ég vil nota tækifærið hér til að upplýsa það sem mér fannst áhugavert þegar við í hv. fjárlaganefnd fórum til Svíþjóðar til að ræða við þarlenda. Við ræddum við alla þá aðila sem hafa af þessu reynslu og koma að þessu, hvort sem það voru pólitískir fulltrúar, embættismenn, eftirlitskerfi eða fulltrúar í eftirlitskerfum.

Það er áhugavert að svo virðist sem í því landi, eins og þeim löndum sem best hefur gengið, hafi náðst samstaða um þessi vinnubrögð. Þegar við tölum um þessi vinnubrögð snýr þetta ekki bara að vinnubrögðum þingsins og framkvæmdarvaldsins heldur líka að því hvernig pólitísk umræða er. Þar er fullyrt, ég hafði svo sem heyrt það áður, og kemur fram í minnispunktum sem fyrri hv. fjárlaganefnd gerði eftir sína heimsókn til Svíþjóðar að ef einhverjir stjórnmálamenn þykja óábyrgir í opinberum fjármálum eigi þeir ekki upp á pallborðið hjá almenningi. Skiptir þá engu máli í hvaða stjórnmálaflokki þeir eru. Ég get ekki alveg fullyrt það án þess að hafa gert á því úttekt en hins vegar vantar ekkert upp á pólitísk deilumál í þessum löndum. Það er bara samstaða um þessi vinnubrögð og þessa nálgun. Þetta snýr svona að einföldum hlutum, ef stjórnmálamenn lofa útgjöldum er spurningin hvernig þeir ætla að fjármagna þau og hvaða úttektir menn hafi gert á því hvernig hægt sé að láta enda ná saman.

Allir sem hlusta á þessi orð mín átta sig á því að við eigum nokkuð í land til að ná þessari menningu í umræðunni í opinberum fjármálum og ríkisfjármálum. Ég vonast hins vegar til þess að við séum á réttri leið og að við munum ná þangað sem ég er að vísa til í opinberri umræðu og sömuleiðis í framkvæmdinni.

Það verður að taka mið af nokkru þegar við erum að ræða þessa hluti. Í fyrsta lagi er hér um langtímaáætlun að ræða. Þetta eru stóru línurnar og ekki fjárlög. Þetta eru ekki fjárlög einstakra ára, eðli máls samkvæmt taka þau breytingum. Hins vegar er þetta uppleggið varðandi stóru þættina og eðli málsins samkvæmt geta ríkisstjórnir, hvort sem það er ný ríkisstjórn sem mundi taka við eftir kosningar eða á sínu tímabili, gert breytingar á þessu. Þá þurfa menn líka að gera breytingar á ríkisfjármálaáætluninni ef þeir breyta þessu í stórum dráttum en innan fjárlaganna, það er ekki verið að semja fimm fjárlög fram í tímann svo það sé algjörlega sagt. Það má ekki telja að svo sé, það mun rugla umræðuna.

Vegna þess að lögin tóku gildi 1. janúar á þessu ári erum við ekki að framkvæma nákvæmlega eins og verður gert á næstu árum. Þannig er hugsunin t.d. sú að áætlunin komi fram á vorin, fjármálaráðið fari yfir hana og komi með sínar umsagnir og við göngum frá henni á vorþingi. Ekki gafst tími til þess núna af augljósum ástæðum. Við í meiri hluta fjárlaganefndar ákváðum vegna þess skamma tíma sem við höfum, því að það er stutt í kosningar eins og menn vita og áætlanir gera ráð fyrir, að fara yfir þá áætlun sem er til staðar og koma með athugasemdir um það sem við töldum að betur mætti fara án þess að koma með beinar tillögur. Við vonumst til þess að það geti verið innlegg og grundvöllur í umræðuna í framhaldinu, ég tala nú ekki um fjárlagagerð.

Það er eðlilegt þegar við erum að gera þetta í fyrsta skipti að menn hafi ekki náð fullkomnun í því að vinna áætlun sem þessa, og ná því seint, en ég ætla að fara yfir helstu þætti sem við bendum á. Ég fer ekki í allt saman, einfaldlega vegna þess að tíminn er of stuttur, en við ákváðum að gera eins og okkur finnst að fjárlaganefndarmenn eigi að gera, að vera gagnrýnin á það sem hér kemur fram. Vonandi er hægt að laga það og taka það sérstaklega fyrir á næstunni.

Förum fyrst í það sem við köllum veikleika og sóknarfæri. Ég fer ekki yfir vinnulagið, menn geta lesið sér til um það, það er meira tæknilegt. Við vekjum athygli á því að það vantar umfjöllun um þróun eigna. Það er mjög mikilvægt að við setjum það inn í næstu ríkisfjármálaáætlun því að það er auðvitað stór þáttur í því hvernig hvernig þátturinn eignir ríkisins þróast.

Í undirkaflanum um spár um hagvöxt og aðhaldsstig ríkisfjármála vekjum við athygli á því að sleitulaus hagvöxtur er forsendan fyrir áætluninni. Það er mjög mikilvægt núna að mínu áliti, í aðdraganda kosninga, þar sem forsendurnar sem við gerum ráð fyrir eru tilkomnar af því að spár þeirra aðila sem spá fyrir um þessi mál liggja til grundvallar. Hagstæð skilyrði hafa leitt til hjöðnunar verðbólgu erlendis. Margir umsagnaraðilar sem komu fyrir nefndina lögðu áherslu á sveiflujöfnunina, að hún mætti vera meiri til að ríkisfjármálastefnan styddi betur við peningamálastefnuna. Á þetta reynir náttúrlega mjög, ekki bara á meirihlutaflokkana í ríkisstjórn heldur alla stjórnmálaflokka í aðdraganda kosninga, hvernig menn nálgast þessa hluti. Það er mjög freistandi að lofa mjög miklu í aðdraganda kosninga. Það hefur kannski oft verið lenskan. Það er sjálfsagt og eðlilegt að menn lofi því sem þeir ætla að standa við. Menn þurfa þá að hafa í huga á hvaða forsendum áætlun byggir og sömuleiðis gera ráð fyrir tekjum á móti þeim útgjöldum sem þeir lofa.

Hér er gert ráð fyrir því að við lækkum skuldir verulega og ef áætlanir ná fram að ganga verðum við með skuldminnstu þjóðum heims. Þá miða ég sérstaklega við lönd OECD. Það er forsendan fyrir því að við getum tekið við áföllum. Ég vek athygli á því að ástæðan fyrir því að við höfum getað unnið jafn vel úr þeirri stöðu sem upp kom eftir fjármálahrunið var sú að ríkissjóður var nær skuldlaus. Sömuleiðis hafði verið greitt verulega inn á lífeyrisskuldbindingar á árunum fyrir fjármálahrunið. Ef það hefði ekki verið hefði staðan verið jafnvel illviðráðanleg eins og við sjáum í þeim löndum sem fengu fjármálahrunið og eru í mjög erfiðri stöðu. Það er m.a. vegna þess að þau lönd voru gríðarlega skuldsett fyrir fjármálahrunið og þegar skuldsetningin varð enn meiri eftir það sér hver maður hvað það þýðir. Bjartsýnustu spár um lækkun skulda þýða að skuldir verða þrátt fyrir lækkunina 662 milljarðar kr. árið 2021 og vaxtagjöldin á ári 39 milljarðar kr. Það er umtalsverð lækkun. Ef ég man rétt voru vaxtagjöldin um 80 milljarðar kr. þegar þessi ríkisstjórn tók við og hún hefur lækkað skuldirnar um tugi milljarða. Engu að síður eru þetta miklir fjármunir og ég held að við vildum flest nýta þá í eitthvað annað.

Það er rétt að hafa þau varnaðarorð að ef hagvöxtur reynist ekki jafn mikill og spáð er mun það hafa mikil áhrif. Það er mikilvægt í þeim áætlunum sem við gerum að við tökum mið af því að það er ekki alveg sjálfgefið að þessir hlutir gangi eftir. Auðvitað höfum ekki neinar betri upplýsingar eins og staðan er í dag, en ég held að það sé skynsamlegt að hafa það í huga að hlutirnir geta breyst og ef þeir breytast til verri vegar hefur það áhrif.

Við nefnum sérstaklega skattamálin. Þrátt fyrir að stigin hafi verið góð skref á þessu kjörtímabili í að auka skilvirkni skattkerfa erum við enn neðarlega þegar við berum okkur saman við önnur ríki OECD í þeim efnum. Nú geta menn haft allar skoðanir á því hversu háir skattar eigi að vera, en það væri betra ef það væri meiri samstaða um að skattkerfin væru skilvirk og einföld því að það þýðir einfaldlega að þau skila meiru, það eru minni líkur á skattundanskotum og erfiðara að stunda skattsvik — ef einhver munur er á skattundanskotum og skattsvikum.

Skatttekjur hins opinbera eru innan OECD hvergi hærra hlutfall en á Íslandi að Danmörku undanskilinni. Skattar á fyrirtæki að frádregnu tryggingagjaldi eru nánast hvergi hærri en á Íslandi. Við erum með sérstaka skatta á fjármálafyrirtæki og sjávarútveg sem valda m.a. miklum vaxtamun og eðli máls samkvæmt verri samkeppnishæfni fyrirtækjanna. Það er í sjálfu sér jákvætt, virðulegi forseti, að við erum eina ríkið innan OECD, síðast þegar það var tekið út, sem er með nettóskatttekjur af sjávarútvegi. Allar aðrar þjóðir innan OECD nota skattpeninga almennings til að greiða niður þann undirstöðuatvinnuveg. Það hlýtur að vera fagnaðarefni. Eðli máls samkvæmt eru allra handa hugmyndir um það hvernig menn vilja breyta fyrirkomulagi í tengslum við sjávarútveginn og sjálfsagt að ræða það og skoða, en það væri vont ef við gengjum einhverja þá leið sem gerði það að verkum að við værum á svipuðum stað og önnur OECD-ríki, þ.e. að við værum að nota skatttekjur almennings til að greiða niður útveginn sem við gerðum sannarlega fyrir ekkert svo mörgum árum.

Neysluskattar eru enn óskilvirkir. Við þurfum að líta á jaðarskatta einstaklinga. Jaðarskattarnir koma út af flóknu samspili tekjuskatta og bóta og sú staða getur hæglega komið upp að þó að viðkomandi einstaklingur hækki eitthvað í launum verði hækkunin í raun mjög lítil og jafnvel eru þess dæmi, þótt ég voni að þau séu ekki á Íslandi, að það bara hækki ekki nokkurn skapaðan hlut og jafnvel lækki, jafn skrýtið og það er.

Við ræddum líka Fæðingarorlofssjóðinn og miðað við þær upplýsingar sem við fengum í nefndinni munu þær að öllu óbreyttu kalla á hækkun tryggingagjaldsins um 0,35%, en mér skilst að flestir, ef ekki allir, stjórnmálaflokkar hafi haft það að markmiði að lækka tryggingagjaldið þannig að ef menn fara þá leið að hækka það þurfum við að líta sérstaklega til þess.

Einnig er í töflu fjallað um tryggingagjaldið og mörkun þess. Ég held að við þurfum að fara vel yfir þann skattstofn af augljósum ástæðum.

Við leggjum sömuleiðis áherslu á að það væri nauðsynlegt og æskilegt að beita útgjaldareglu til að auka aðhaldsstig í góðæri því að sem betur fer erum við núna að fara, að öllu óbreyttu, í hagvaxtarskeið. Við þurfum líka að vera aðhaldssöm þegar kemur að stjórn efnahagsmála og ríkisfjármála í uppsveiflu. Við höfum mörg dæmi þess að það hafi ekki gengið eftir, því miður.

Við förum ekki í gegnum alla þætti, en við vekjum athygli á því t.d. að samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir 30% hækkun til utanríkisráðuneytisins og auknum framlögum til vinnumarkaðsmála þrátt fyrir að atvinnuleysi minnki stöðugt. Sumar þessar hækkanir til utanríkisráðuneytisins eru nokkuð sem við erum búin að skuldbinda okkur til og tengist þá hækkun landsframleiðslu, en annað tengist því að gert er ráð fyrir að fara í gegnum svið sem við í hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar teljum að væri æskilegra að atvinnulífið mundi sinna. Ég get farið betur í það á eftir ef einhver hefur áhuga á að spyrjast fyrir um það.

Við leggjum áherslu á að það á ekki að hækka útgjöld nema fyrir liggi stefnumörkun um útgjöldin. Alveg eins og versta leiðin sem til er þegar menn eru að spara er að vera með flatan niðurskurð á það sama við þegar menn eru í betri færum til að bæta í. Þá eiga menn ekki að fara í flata prósentuhækkun, þvert á móti. Hugsunin með langtímaáætlun ríkisfjármálaáætlunarinnar er líka að menn setji sér markmið um það hvaða árangri menn ætla að ná. Það skiptir engu máli hvort það eru heilbrigðismál, menntamál, félagsmál eða hvað það er, menn eiga að setja sér töluleg og skilgreind markmið um hvaða árangri á að ná og síðan eiga menn að leita þeirra leiða sem hagkvæmastar eru til að ná þeim árangri til þess að við getum gert eins vel og mögulegt er og nýtt skattfé almenningsins eins vel og mögulegt er.

Við vekjum athygli á aðgerðum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar. Þar hafa 30 af 110 tillögum náð fram að ganga. Stærstu sameiningarnar eru vegna sýslumanna, lögreglustjóraembætta og heilbrigðisstofnana, en betur má ef duga skal. Þetta eru einungis 30 af 110 tillögum og það er mikilvægt að við göngum betur til verka og setjum okkur markmið um hvenær við ætlum að ná árangri eða klára þau verkefni sem menn ætla að fara í. Ef menn vilja ekki fara í einhverjar af þessum tillögum á bara að blása þær af borðinu og koma með einhverjar aðrar tillögur í staðinn.

Samband íslenskra sveitarfélaga lagði á það áherslu fyrir nefndinni að það vildi stytta grunnskólann og taldi að með því væri hægt að ná auknum árangri í menntamálum. Ég tel að við eigum að skoða það. Við vekjum athygli á því út af styttingu framhaldsskólans að þeir fjármunir sem þar sparast fara inn í kerfið þannig að þar eru komnir auknir fjármunir sem nýtast í framhaldsskólanum.

Sömuleiðis vekjum við athygli á því að af því að útgjöldin á stjórnsýslusviði menntamála hafa aukist um 340 millj. kr. frá 2013 er að okkar mati svigrúm til að nýta þá fjármuni í háskólana ef pólitískur vilji er fyrir hendi. Eitthvað í þessu er einskiptiskostnaður, en það þyrfti að fara sérstaklega yfir þetta því að ef við gætum gert betur á einhverju skólastigi er það án nokkurs vafa á háskólastiginu.

Við förum sérstaklega í innkaupa- og útboðsmálin sem eru meðal þess sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt mikla áherslu á. Það er að koma í ljós að pottur er víða brotinn þegar kemur að innkaupamálum hins opinbera. Nú hefur verið unnið skipulega að því að laga það. Verkefnastjórn á vegum hæstv. fjármálaráðherra hefur staðið fyrir sameiginlegum innkaupum stofnana. Um daginn buðu fimm stofnanir innan A-hluta ríkisrekstrarins út hluti eins og tölvur og pappír. Sparnaður við innkaup þessara fimm stofnana var um 90 millj. kr. og það eru ekki litlir peningar.

Við leggjum áherslu á að ljúka innleiðingu rafrænna reikninga hjá Fjársýslunni, uppfæra innkaupastefnu ríkisins og að allar ríkisstofnanir færi fjárhagsbókhald í Orra til að fá fulla yfirsýn og upplýsingar um einstök innkaup.

Við tókum sérstaklega fyrir húsnæðismál ríkisstofnananna. Þar teljum við mikla möguleika til að spara fyrir ríkið og sömuleiðis ná betri árangri, hafa húsnæði sem hentar betur fyrir viðkomandi stofnanir. Það er hins vegar ákveðinn galli að ríkissjóður gjaldfæri ekki fjárbindingu í húsnæði og að hún kemur ekki fram í leiguverði. Það hefur sýnt sig í öðrum löndum að ef opinberar stofnanir greiða markaðsleigu minnkar fermetrafjöldinn. Alþjóðleg viðmið fyrir fermetrafjölda á stöðugildi hjá ýmsum öðrum þjóðum eru 16 fermetrar. Þeir eru 23 fermetrar hér en hefur samt sem áður fækkað þó nokkuð. Af augljósum ástæðum þarf að skapa hvata til að draga úr þessari húsnæðisþörf.

Meiri hluti fjárlaganefndar hefur gert tillögu sem hefur verið samþykkt í fjárlögum, þ.e. þingið hefur samþykkt heimild að tillögu meiri hluta fjárlaganefndar um t.d. að selja Tollhúsið og finna þeirri starfsemi annan stað, sem og Þjóðskjalasafnið. Lengi hefur verið heimild fyrir því að selja lögreglustöðina og finna þeirri starfsemi annan stað. Þetta eru allt saman dæmi um hús sem eru á góðum stöðum fyrir ýmislegt en kannski ekki endilega þá starfsemi sem þar er. Þetta er nokkuð sem við munum fjalla meira um í hv. fjárlaganefnd á næstu dögum.

Við vekjum athygli á þeirri miklu breytingu sem er á efnahagslífinu vegna ferðaþjónustunnar. Umfang ferðaþjónustunnar hefur aukist gríðarlega. Gjaldeyristekjurnar hafa aukist um 100 milljarða á síðustu tveimur árum. Hlutur ferðaþjónustu í útflutningstekjum hefur farið úr 18% frá árinu 2010 og verður nú samkvæmt spám 34%. Ísland er í 18. sæti af 141 yfir samkeppnishæfustu ferðamannalöndin. Styrkurinn er í mannauði sem og því að landið er opið og vel tengt flugumferð. Öryggi og hreinlæti eru líka meðal kosta landsins samkvæmt þessari úttekt. Það er mikilvægt að við höldum því og hækkum samkeppnishæfnina enn frekar. Það er mikilvægt að forgangsraða miðað við þessar breyttu forsendur í þessari undirstöðuatvinnugrein og þá erum við að vísa sérstaklega til samgöngumála, innviða og fjarskiptamála.

Sömuleiðis bendum við í þessum kafla á að það er hægt að hægja á framkvæmdum sem gert er ráð fyrir varðandi Stjórnarráð og stofnanir á höfuðborgarsvæðinu. Það liggur fyrir að við erum að fara í mjög stórar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu eins og nýjan spítala. Það er skynsamlegt hjá hinu opinbera að fara í framkvæmdir þegar svona slaki er í efnahagslífinu. Það er augljóslega ekki hægt að gera það þegar kemur að spítalanum af ástæðum sem við þekkjum. En sömuleiðis er út af breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar gríðarleg þörf á að byggja hér fleiri hjúkrunarheimili og sömuleiðis styrkja hagkvæmari úrræði, úrræði sem henta betur fyrir þá sem þurfa ekki að vera á hjúkrunarheimili á næstu árum og áratugum af þeirri einföldu ástæðu að á næstu tíu árum mun þeim sem eru 67 ára og eldri fjölga um 50%. Við leggjum til að menn hægi á framkvæmdum við Stjórnarráðið og stofnanir á höfuðborgarsvæðinu en líti frekar til hjúkrunarheimila.

Enn fremur vekjum við athygli á því, og ég held að það sé mikilvægt að menn ræði það málefnalega, að við erum að taka mikla áhættu þegar við setjum 70–90 milljarða af ríkisfé inn í uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli. Nú er enginn vafi á að það er mjög mikilvægt að fara í þessa framkvæmd, en hér er um að ræða ríkisfyrirtæki að fullu á ábyrgð skattgreiðenda sem eiga að fjármagna hana með beinum hætti. Við vonumst til þess að hér muni allt ganga mjög vel um alla framtíð og ferðaþjónustan verði áfram eins og hún er í dag, en reynslan kennir okkur að það er ekki sjálfgefið. Við þurfum ekki nema að skoða umræður í þessum sal um Íbúðalánasjóð þegar menn voru að fara að stórauka hlutverk hans. Það er nákvæmlega eins og Isavia, það er bara fyrirtæki sem er á ábyrgð skattgreiðenda og reyndar er þar líka ríkisábyrgð á lánum sem er annað mál. Þegar illa fór, sem svo sannarlega gerðist, fór reikningurinn beint á skattgreiðendur og hefur hann núna verið frá fjármálahruni sem samsvarar nýjum spítala, þ.e. rúmlega 50 milljarðar kr. fyrir tiltölulega lítinn húsnæðisbanka.

Ég er ekki að spá einu eða neinu öðru en því að ég er bara að vekja athygli á því að það skiptir máli fyrir okkur að dreifa áhættunni, þótt ekki væri annað, en hins vegar mega menn skoða ýmislegt annað sem tengist Isavia. Ég ætla ekki að fara í það hér en ég vek athygli á því að þegar við erum að tala um blandaða fjármögnun erum við að gera svipað og það sem gerist hjá öðrum þeim þjóðum sem við berum okkur saman við, um 80% af flugfarþegum sem fara til og frá Evrópu og innan Evrópu eru á flugvöllum sem ýmist eru í einkaeigu eða í blandaðri eigu.

Ég vísaði í breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar sem kallar á aukna eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu. Við þurfum að breyta hlutunum í samræmi við það. Svo sannarlega er lögð mikil áhersla á heilbrigðismál í þessari langtímaáætlun og sömuleiðis er heildstæð áætlun um uppbyggingu Landspítalans sem kemur nú í fyrsta skipti. Við vekjum hins vegar athygli á því að það þarf að vera gagnsærra og betra launakerfi hjá hinu opinbera, þar með talið í heilbrigðiskerfinu, og vekjum athygli á mikilvægi heimahjúkrunar. Hið sama á við um markmið með sjúkratryggingalögunum. Þau lög hafa tekið að fullu gildi og hafa það að markmiði að gæða- og kostnaðargreina þjónustuna og nýta, þegar það er mögulegt, það sem tæki til að borga fyrir eða semja við þá aðila sem eru með hagkvæmustu lausnirnar á hverjum tíma. Þetta er einfaldlega að erlendri fyrirmynd, þetta er fyrirmynd frá Norðurlöndunum og hefur gefist vel í öðrum löndum. Við höfum stigið fyrstu skrefin, hæstv. heilbrigðisráðherra gerði það með því að vinna á biðlistunum, m.a. á Landspítalanum, með því að gera afkastatengda samninga sem var í fyrsta skipti gert, ef ég man rétt, á DRG-kerfinu. Hann hefur stigið sambærileg skref þegar kemur að heilsugæslunni, að kostnaðargreina þá þjónustu og borga eftir módeli sem hefur gengið vel, sérstaklega í Salahverfinu í Kópavogi.

Við sjáum miklar breytingar á íslensku þjóðfélagi vegna þess að þeir ánægjulegu hlutir eru að gerast að fólk verður eldra en var áður og þá eru uppi áætlanir og samkomulag um að hækka lífeyristökualdur úr 67 í 70 ár. Ég held að það sé alveg kominn tími á það. 70 ára aldursmarkið kom fyrst fram í Þýskalandi árið 1891 þegar Bismarck var þar kanslari. Þá var meðalaldurinn 47 ár. Árið 1971 var hann á Íslandi 74,5 ár og á þessu ári er hann 82,3 ár, hefur hækkað um átta ár frá 1971, og mun hækka um önnur fjögur ár til ársins 2065 ef spár ná fram að ganga.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að minnka þá aldursmismunun sem er til staðar í íslensku samfélagi og mun flytja sérstakt þingmál um að við munum fella úr gildi þær reglur í lögum sem banna fólki 70 ára og eldra að vinna hjá hinu opinbera. Ég tel það hvorki réttlátt né skynsamlegt. Það er augljóst að frá því að þau lög voru sett, 1954 ef ég man rétt, hefur mikið breyst. Þetta er jákvæð breyting. Við eigum að fagna henni, en við þurfum hins vegar að búa okkur undir hana. Einn þátturinn sem snýr að þeim undirbúningi er að gefa fólki aukinn sveigjanleika og það eigum við að gera.

Ef við tölum um tengsl samgönguáætlunar og langtímaáætlunar í ríkisfjármálum þarf að samræma þau betur. Ýmislegt annað er í þessu nefndaráliti sem er um 18 síður, ef ég man rétt, og ég næ ekki að fara yfir þær síður í smáatriðum en hef tiplað á ýmsu og kannski því stærsta.

Ég vil að lokum segja það sem ég sagði í upphafi: Hér er um að ræða tímamótavinnu. Ég vil óska öllum sem að henni hafa komið til hamingju, ekki síst hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjármálaráðherra. Það er ánægjulegt að þessi lög eru komin í gegn og við farin að vinna eftir þeim. Þetta eru fyrstu skrefin og ég er alveg sannfærður um að þetta eru mikil heillaskref fyrir íslenska þjóð.