145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

orð ráðherra um stöðu fjölmiðla.

[10:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins út í orð sem hann birti á Facebook-síðu sinni um stöðu fjölmiðla þar sem hann lýsir áhyggjum af stöðu íslenskra fjölmiðla vegna fjárskorts og manneklu en segir svo fjölmiðla skorta stefnu, markmið og skilaboð og séu í raun og veru tilgangslausir orðnir að öðru leyti en því að vera til staðar fyrir þá sem þar vinna.

Þetta eru ansi þung orð hjá formanni stærsta stjórnmálaflokks landsins, ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem fjölmiðlar á Íslandi og annars staðar í hinum vestræna heimi eiga í á tímum tæknibreytinga, á tímum samfélagsmiðla, þar sem tekjustofnar hefðbundinna fjölmiðla hafa veikst þannig að þeir ráða illa við að halda úti hlutverki sínu sem er að þjóna almenningi og gera almenningi kleift að gera mun á staðfestum upplýsingum og öðru því efni sem flýtur um samfélagsmiðla, t.d. frá okkur stjórnmálamönnum sem öll höldum úti okkar Facebook-síðum. Hæstv. ráðherra klykkir út með að spyrja: Af hverju er ekki bara opnuð ein opin Facebook-síða í stað fjölmiðla því þar eru hvort eð er alls konar skoðanir? Eins og fjölmiðlum sé ætlað að vera málpípa einnar skoðunar.

Slíkum orðum fylgir auðvitað ábyrgð í tilfelli formanns stærsta stjórnmálaflokks landsins, ekki síst þegar við horfum upp á það að Ísland er hið eina Norðurlanda sem er ekki á topp tíu lista yfir fjölmiðlafrelsi í heiminum. Og það er dálítið áhugavert að Ísland var á þeim topp tíu lista fyrir tveimur árum en hefur hrapað um meira en tíu sæti, ekki síst vegna umræðu stjórnmálamanna um fjölmiðla. Að sjálfsögðu mega stjórnmálamenn gagnrýna fjölmiðla fyrir skoðanir þeirra, þetta snýst ekki um það, en mér finnst hins vegar orð ráðherrans bera vott um að hann geri ekki mikinn greinarmun á því sem við köllum bara (Forseti hringir.) hefðbundna samfélagsmiðla og því sem við eigum að gera kröfu til að séu faglegir fjölmiðlar þó að þar séu ýmsar skoðanir. (Forseti hringir.) Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Er þá ekki frekar ráð að leggja til einhverjar aðgerðir til að bæta stöðu fjölmiðla fremur en að þeyta þessu upp með þessum hætti?