145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

orð ráðherra um stöðu fjölmiðla.

[10:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að biðja þingmenn um að leggja mér ekki orð í munn. Menn geta alveg verið í fjölmiðlarekstri á Íslandi mín vegna og skipt um skoðun á hverjum degi og dælt út hvaða dellu sem er, gjörið svo vel. Þá verður það mín upplifun á viðkomandi fjölmiðli að hann sé ekki markverður, ekkert mark sé á því takandi sem þaðan streymir. Í guðs bænum, ekki leggja mér þau orð í munn að ég ætlist til að það sé einhver tiltekin ritstjórnarstefna eða sérstök pólitík rekin á viðkomandi fjölmiðli, að það eigi að reka fjölmiðla á Íslandi undir einni pólitískri stefni. Þetta er allt saman tóm della. Og það sem ég tek eftir er að hv. þingmaður virðist þó vera sammála um það að fjölmiðlaumhverfið er erfitt. Það eru miklir veikleikar í fjölmiðlaumhverfinu. Getum við þá ekki rætt það? Var ég ekki einmitt að benda á atriði sem gætu komið til aðstoðar í fjölmiðlafyrirtækjunum til þess að geta betur rækt það hlutverk sem við höfum ávallt lagt áherslu á? Til að mynda var verulega mikið fjallað um í skýrslu fjölmiðlanefndarinnar á sínum tíma þetta aðhaldshlutverk og hversu mikilvægt það er fyrir samfélagið að fjölmiðlarnir búi (Forseti hringir.) við þær aðstæður að þeir geti rækt það hlutverk almennilega. Það er bara mín upplifun að þeir eru ekki (Forseti hringir.) að gera það í dag og mér heyrist þingmaðurinn vera sammála um það og eigum við þá ekki að beina umræðunni að því?