145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[14:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið alveg heilan fund og ekki stendur á mér að taka tveggja daga lotu um aðgerðir síðustu ríkisstjórnar versus þessarar ef út í það er farið. En eigum við ekki að halda okkur við þetta ágæta mál hæstv. fjármálaráðherra svona í bili? Hæstv. fjármálaráðherra er að reyna að segja að það sé einhvern veginn öðruvísi ef ríkið verður af tekjum vegna þess að það sleppir því að skattleggja hluta launateknanna í landinu og þess vegna megi ekki tala um hlutina eins og ég geri. Með sömu rökum getur hæstv. fjármálaráðherra væntanlega bara sagt: Það er enginn skattalækkun, ríkið er ekki að afsala sér neinu þó það bara sleppi tekjuskattinum og kannski sveitarfélögin útsvarinu líka. Hvers konar málflutningur er þetta? Þetta er hluti af næststærsta tekjuöflunartæki ríkisins, þar sem eru beinir skattar. Eftirgjöf á þeim, eru það ekki fjármunir úr ríkissjóði? Má ekki stilla upp reikningsdæmum þar sem það er sett fram hvernig þeim fjármunum er ráðstafað? Jú, það er nákvæmlega svona eins og ég hef farið yfir og þarf ekki að fara frekari orðum um.

Varðandi tekjuskattsbreytingar á síðasta kjörtímabili þá voru þær vissulega verulegt tekjuöflunartæki enda hafði ríkisstjórnin á undan farið þannig með tekjuskattskerfið að það var flatt út í einu þrepi, ekkert álag á hæstu laun, hátekjuskatturinn var lagður niður í áföngum á árunum 2003–2007 þannig að Ísland var að verða eitt fárra landa í heiminum sem hafði engar sérstakar viðbótarálögur á ofurlaun eða bónusa og annað slíkt. Það var nú einn hluti galskaparins á þensluárunum og ofurlaunaárunum að hátekjuskatturinn sem þó hafði verið við lýði, visst álag á allra hæstu laun — nei, hann var lagður niður akkúrat þá. Að sjálfsögðu breyttum við því. Og að sjálfsögðu þyngdum við skattbyrðina á tekjuhæsta fólkinu í landinu. Hvað annað átti að gera? Það var vissulega einungis ein af ótalmörgum ráðstöfunum sem ráðist var í til að rétta af halla ríkissjóðs. Mér finnst að hæstv. fjármálaráðherra og þeir fleiri á stjórnarheimilinu mættu muna eftir því hvað þeir fengu í hendur — (Forseti hringir.) ríkissjóð í jafnvægi árið 2013. Hverjir tóku (Forseti hringir.) á sig erfiðleikana? Hverjir tóku á sig skítkastið? (Fjmrh.: Fólkið í landinu.) Hverjir tóku á sig óvinsældirnar af þeim aðgerðum pólitískt séð? Það er alveg rétt, það var fólkið í landinu sem bar byrðarnar, en við urðum að standa fyrir því sem stjórnmálamenn (Fjmrh.: Já, og fólkið fyrir Landsbankann.) og ætli hæstv. fjármálaráðherra væri ekki maður (Forseti hringir.) að meiri ef hann þakkaði stundum fyrir það (Fjmrh.: … fólkið fyrir …) að hann nýtur góðs af öllu striti (Forseti hringir.) fyrri ríkisstjórnar hvað þetta varðar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (BjÓ): Forseti vill biðja hv. þingmenn að virða tímamörk.)