145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[17:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég freistast til þess að leggja aðeins orð í belg um þetta mál. Ég átti satt best að segja von á mikilli umræðu og langri mælendaskrá, varð hissa þegar ég bað um orðið að ég væri aftastur á henni. Það er að sjálfsögðu vegna þess að þetta er svo maður sletti kannski svona óbeint, það má kalla þetta eiginlega „stórasta“ smámál í heimi, þ.e. þetta gríðarlega mál um verðtrygginguna og afnám hennar, sem mikið hefur verið talað um og boðað, er orðið að þessu örmáli hér sem er nánast ekki neitt. Auðvitað átti ég von á því sérstaklega að hv. þingmenn Framsóknarflokksins, forustumenn Framsóknarflokksins, loforðagjafarnir, mundu að sjálfsögðu koma hingað og standa fyrir máli sínu. Hvar er, herra forseti, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og fyrrverandi forsætisráðherra? Sem lofaði þjóðinni því að kæmist hann til valda á Íslandi mundi hann afnema verðtryggingu strax. Síðan riðu framsóknarmenn um héruð og sögðu þetta sama. Við erum nokkur hér inni örugglega sem munum vel eftir þessu í kosningabaráttunni í aðdraganda alþingiskosninga 2013. Það sorglega var að ekki bara trúði fólk á þetta loforð heldur lagði unnvörpum þann skilning í að verðtrygging sem slík mundi bara hverfa og öll verðtryggð lán breytast í óverðtryggð og allir lifa hamingjusamlega upp frá því eins og segir í ævintýrunum.

Ég varð aftur og aftur var við það í málflutningi í umræðuþáttum, á vinnustöðum eða á sameiginlegum fundum að framsóknarmenn kusu að tala þannig um þetta stóra loforð sitt að fólk féll unnvörpum fyrir því og lagði í það þann skilning að öll verðtrygging mundi bara þurrkast út og yrði ekki til staðar lengur. Þvílíkt ábyrgðarleysi, þvílíkt lýðskrum. Hvað stendur svo eftir? Þetta hróflar ekki við verðtryggingu á nokkurn hátt gagnvart liðnum tímum, það er meira að segja þannig að í frumvarpinu er sérstaklega tekið fram að þessar skorður hamla ekki yfirtöku eins á verðtryggðu láni frá öðrum. Og inn í framtíðina er það eingöngu einn þröngur hópur fólks á tilteknum aldrei sem má ekki taka þessi lán. Yngra fólk, tekjulægra fólk og þeir auðvitað sem eru líklegastir til þess að leita í svona lán vegna þess að þeir ráði betur við greiðslubyrðina af því fyrstu árin, þeim stendur það opið með undanþágum.

Það er líka athyglisvert, herra forseti, að tveir stjórnarliðar hafa blandað sér í umræður í dag, hv. síðasti ræðumaður, Vilhjálmur Bjarnason, og hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir að vísu aðeins í andsvari. Báðir þessir stjórnarliðar lýstu óánægju, vonbrigðum eða óánægju. Ég ætla ekki að túlka orð þeirra að öðru leyti, en þannig skildi ég upplifun þeirra. Bíddu, er það þá þannig að enginn sé ánægður með þetta? Enginn. Ekki framsóknarmennirnir sem lofuðu afnámi verðtryggingar og sjá þetta auðvitað renna út í sandinn hjá sér því að þetta mun aldrei seljast sem efndir á því kosningaloforði. Aldrei, því miður. Það mun ekki ganga.

Mér heyrist Sjálfstæðisflokkurinn eða að minnsta kosti sumir þar ekkert sérstaklega hrifnir heldur. Satt best að segja, þó að maður eigi kannski ekki að túlka svona fas og framgöngu manna og leggja í það eitthvað merkingarbundið, fannst mér enginn sérstakur eldmóður í hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra þegar hann mælti fyrir málinu. Ég held hann hafi oft talað fyrir einhverju af meiri sannfæringu og ástríðu en þessu. Enda er þetta alveg dæmalaust rýrt þegar upp er staðið og langt, langt í burtu frá því sem rætt var um og engin framtíð heldur lögð, það er ekki boðað neitt um einhver næstu skref eða hvað sé hægt að gera.

Hafandi sagt þetta vill ræðumaður taka fram til að forða misskilningi að enginn er ég sérstakur aðdáandi verðtryggingar og hef lengi talað fyrir því og haft þá afstöðu til þessara mála að það að draga úr umfangi verðtryggingar í hagkerfi okkar væri mjög mikilvægt mál. En ég hef alltaf reynt að tala um það af ábyrgð. Ég hef aldrei gefið nokkrum manni það í skyn að hægt væri með einhverjum töfrabrögðum að láta verðtryggingu hverfa, hef vitað það lengi að það er ekki svo, það er ekki hægt. Verðtrygging er útbreidd í hagkerfi okkar á báðar hliðar. Lífeyrisskuldbindingar eru verðtryggðar. Við höfum búið við mjög mikla verðtryggingu skulda og skuldbindinga og eigna í landinu allt frá 8. áratug síðustu aldar þegar menn byrjuðu að hálfverðtryggja og síðan fullverðtryggja lán, t.d. námslán, íbúðalán og svo þegar lögin um verðtryggingu, Ólafslögin frægu, voru sett 1979 og kennd við þáverandi forsætisráðherra, Ólaf Jóhannesson, enda hefur mér þess vegna alltaf þótt það mjög gaman að framsóknarmenn skuli tala um það öllum öðrum flokkum meira að afnema verðtrygginguna af því að höfundarverkið á einn af fyrrum formönnum þess flokks. Oft var talað um það í gamni eða alvöru. Mér er sagt það að nokkru leyti með réttu að Ólafslögin hefðu verið samin beinlínis við eldhúsborðið hjá þáverandi forsætisráðherra. En af hverju settu menn þau? Vegna þess að þá höfðu menn búið við mikla verðbólgu og sparifé þeirra sem það áttu brann upp og kapphlaup var um að fá lán því að það voru gæði, þau rýrnuðu hratt og menn borguðu ekki nema brot af andvirði þeirra til baka. Það er heldur ekki gott. Menn voru að reyna að glíma við þessa drauga, þennan óstöðugleika, með því að leggja þá inn þennan möguleika að hægt væri að verðtryggja skuldbindingar þannig að verðgildi þeirra héldi sér. En það leiddi síðan smátt og smátt til þess að umfang verðtryggingar í hagkerfinu hjá okkur er gríðarlega mikið.

Af hverju er það óæskilegt? Röksemdir mínar eru í fyrsta lagi hagstjórnarlegar. Það er alveg rétt sem hér er sagt, sérstaklega þegar menn eru með þannig útbúin lán, svokölluð jafngreiðslulán sem menn kalla það eða hvað það nú er, þeir fá verðbæturnar, þeim er jafnað út yfir höfuðstólinn og lánið er þannig uppbyggt að verðbólguskot sem kemur leggst bara við allan höfuðstól lánsins sem eftir er o.s.frv., það deyfir auðvitað áhrifin af slíku. Í öðru lagi virka ýmis hagstjórnartæki kannski ekki með sama biti og áður. Það má deila um hversu virk þau yrðu jafnvel þó að lánin væru að uppistöðu til óverðtryggð, sérstaklega ef þau ná til langs tíma, t.d. óverðtryggð lán með föstum vöxtum fyrstu fimm árin, það væri engin óskapleg breyting þó að Seðlabankinn hækki stýrivexti sína gagnvart þeim. En þá er hætt við því að vextirnir séu að einhverju leyti hærri því að menn væru með eitthvert verðbólguálag eða áhættuálag innifalið í því. Í þriðja lagi er ég auðvitað andsnúinn verðtryggingunni og finnst hún slæm vegna þess að niðurstaða okkar af sambúðinni við hana er sú að vextirnir eru einfaldlega allt of háir. Raunvextir á verðtryggðum lánum eru líka allt of háir og fjármagnið er allt of dýrt, það tekur of mikið til sín. Menn töldu margir þegar verðtryggingin kom á sínum tíma og var iðulega um það talað að vextir á verðtryggðum lánum ættu alls ekki að þurfa að vera nema svona 1%, fjármunirnir væru tryggðir í verðtryggingunni og það væri alveg nóg ávöxtun, 1% eða 1,5%. En svo hefur bara ekki orðið raunin, því miður. Að opinber lánasjóður sé t.d. skyldaður til þess að lána ekki út nema á 4,3% vöxtum, eitthvað svoleiðis, er auðvitað ótrúleg birtingarmynd þess að þetta er allt, allt of dýrt og allt of hátt hjá okkur.

Þar með er ekki sagt að það að hætta að veita verðtryggð lán eða bjóða upp á þau mundi sjálfkrafa lækka kostnað á fjármagni á Íslandi, því miður ekki. Það er bara þannig, því miður. Þar liggja ræturnar dýpra og eru náttúrlega að einhverju leyti fólgnar í hagstjórnarvanda okkar og mistökum, óstöðugleika, hræðslu við þann óstöðugleika og einhvern veginn þeim væntingum sem alltaf svífa yfir að menn verði að tryggja sig rækilega með annaðhvort mjög háum nafnvöxtum eða rétti til að hafa þá breytilega og hækka þá, eða að hafa verðtryggða vexti í raun og veru mjög háa. Ávöxtunarkrafa eða ávöxtunarviðmiðun lífeyrissjóðanna upp á 3% ofan á verðtryggingu er að sjálfsögðu líka þarna til staðar og margt, margt fleira. Niðurstaðan af öllu saman er sú að okkar stóri vandi í þessu er hversu fjármagnið er dýrt og tekur mikið til sín.

Verðtryggingin er ósanngjörn í þeim efnum af því að hún oftryggir í raun og veru fjármagnið. Það er mikið til í því sem margir hafa sagt að með því að verðtryggja lán og hafa þau síðan með þó nokkuð háum vöxtum, þá er lánveitandi bæði með belti og axlabönd, hann er svo gjörsamlega tryggður í bak og fyrir. Bankar, þó að aðrir sem lána út óverðtryggð lán, sérstaklega ef þeir hafa á þeim fasta vexti á einhverju árabili, taka þó einhverja smááhættu með lántakanum í því en það gera þeir auðvitað alls ekki í þessu tilviki.

Væri hægt að mæta þessu og draga úr umfangi verðtryggingar og vægi með öðrum ráðstöfunum? Já, það má hugsa sér ýmislegt í því. Það má líka hugsa sér breytta vöru sem væri í boði, t.d. þaksett verðtryggð lán. Ágætar skýrslur eru til um það. Ef menn eru hræddir við að taka verðtryggð lán m.a. vegna þess að verðbólguskot getur komið og höfuðstóllinn stokkið upp, það hefur ekki óskaplega þung áhrif á greiðslubyrðina, það getur farið mjög illa með eignastöðu fólks eins og við þekkjum …(Fjmrh.: Hvaða máli skiptir það?) Ja, það hefur nú ekkert gefist sérstaklega vel að menn geti veðsett húsnæði sitt 80% og svo stökkbreytist lánið og fari yfir 100% af verðmæti fasteignarinnar, menn sitji fastir í því. En auðvitað skiptir það máli að menn ráði við greiðslubyrðina. Það væri líka hægt að útbúa lánin þannig að menn gætu keypt sér tryggingu með hóflegu vaxtaálagi fyrir því að menn bæru aldrei meiri hækkun en t.d. viðmiðunarvexti Seðlabankans eða meiri hækkun en verðbólguviðmið Seðlabankans eða efri vikmörk þess. Það yrði væntanlega þannig að menn yrðu að borga það með einhverju vaxtaálagi, en slík trygging gegn því að mæta einhverjum ófyrirséðum verðbólgukúf inn í framtíðinni gæti alveg verið þess virði, t.d. fyrir ungt fólk sem væri að taka svona lán til langs tíma.

Ég er dálítið hissa á því að í þessu rýra plaggi er ekkert fjallað um einhverjar mögulegar aðrar leiðir eða einhverjum slíkum hlutum velt upp eða þá bara miklu róttækari aðgerðir til að reyna að færa útlánin meira yfir í óverðtryggð lán, fyrir utan þennan litla hvata sem er í öðru frumvarpi um að menn geti notað hluta af skattfrjálsum séreignarsparnaði til að greiða á tímabili niður höfuðstól lána ef þau eru óverðtryggð, þ.e. afborganirnar af lánunum líka. Það er nú frekar létt í maga.

Þetta er nokkuð undarleg niðurstaða, herra forseti. Nú er kjörtímabilinu að ljúka og það er að renna upp fyrir stjórnarflokkunum og þess vegna er þessu sjálfsagt flaustrað hér fram að það á að láta heita svo að eitthvað örlítið sé verið að reyna að gera og ekki seinna vænna, við erum á síðustu dögum þinghalds fyrir kosningar. Þetta er þá öll uppskeran.

Hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason nefndi annað sem ég vil aðeins í lokin tæpa á. Að vandi okkar er ekki síst sá að skapast hefur meiri og meiri skortur, einfaldlega skortur á húsnæði, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, en reyndar á fleiri stöðum í landinu, staðbundið. Viðvarandi ástand af því tagi hefur náttúrlega mjög óheillavænleg áhrif. Það þrýstir fasteignaverðinu hratt upp þannig að ljóst er að það er víða komið langt upp fyrir stofnkostnaðarverð og leiga hækkar. Staðan á húsnæðismarkaði er því auðvitað skelfileg. Það vantar þúsundir og aftur þúsundir íbúða til að eðlilegt jafnvægi komist á. Það er bara veruleiki. Þetta hér leysir ekkert af þeim vanda, ekki neitt að sjálfsögðu.

Ríkisstjórnin stendur frammi fyrir því og er staðreynd máls að hún hefur engu komið áleiðis á þessu kjörtímabili sem leysir úr þeim vanda. Jú, við lögfestum síðastliðið vor lög um almennar íbúðir og þar eru fyrirheit um að styðja við uppbyggingu leiguíbúða, en engin slík íbúð hefur verið byggð og verður sennilega ekki byrjað á því fyrr en á næsta ári, því er eitt og hálft eða tvö ár í það að fyrsti maðurinn flytji hugsanlega inn í íbúð sem að einhverju leyti má segja að verði til fyrir tilstuðlan þessarar ríkisstjórnar. Það verður komið langt inn á næsta kjörtímabil. Þetta er staðan. Þess vegna er það auðvitað óskaplega dapurlegt þegar farið er yfir sviðið og horft á afraksturinn af starfi ríkisstjórnarinnar af húsnæðismálum þetta kjörtímabil.

Það er svo sem alveg rétt og þessari ríkisstjórn er nokkur vorkunn að því leyti að hún er ekki sú fyrsta sem á í miklum erfiðleikum í glímunni við það að koma einhverju viti og einhverjum stöðugleika í húsnæðismál á Íslandi. Ég hef sagt það áður, herra forseti, og get endurtekið það, fyrir utan almenna hagstjórn sem frægt er náttúrlega að endemum hvernig Íslendingar hafa klúðrað gegnum áratugi, þá er held ég alveg ljóst að silfurverðlaunahafinn í klúðri á Íslandi, það eru húsnæðismálin. Okkur hafa verið rosalega mislagðar hendur um langt, langt árabil svo ekki sé sagt áratugi í því að byggja upp farsæla húsnæðisstefnu sem bjóði fólki öryggi og sómasamleg kjör í þeim efnum.