145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræddum hér í gær mál hæstv. ríkisstjórnar sem miðar að því að setja fram takmarkanir á verðtryggðum jafngreiðslulánum. Við erum á þessu haustþingi m.a. vegna þess að forsvarsmenn hæstv. ríkisstjórnar töldu nauðsynlegt að kláruð yrðu mál sem tengdust verðtryggingunni. Í ljósi þess að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði hér í janúar 2014 að það væri fullkomlega mögulegt að afnema verðtrygginguna á þessu kjörtímabili og í ljósi þess að þetta hefur verið kosningamál Framsóknarflokksins allt frá árinu 1988, hann hefur raunar haft allmörg tækifæri í ríkisstjórnarsetu frá þeim tíma til að framfylgja þessu kosningaloforði, og í ljósi þess að þetta var eitt stærsta málið fyrir síðustu kosningar áttum við kannski von á meiru á blaðamannafundi í Hörpu í upphafi þessarar viku þar sem leggja átti línurnar um afnám verðtryggingar. Þegar málið kemur fram kemur í ljós að þessi mjög svo langa jóðsótt sem hefur staðið allt þetta kjörtímabil skilar afar smávaxinni mús.

Það sem vekur athygli er að þrír hv. þingmenn úr stjórnarliðinu tóku til máls í umræðum í gær, tveir framsóknarmenn og einn sjálfstæðismaður, og öll lýstu þau talsverðum efasemdum um mál hæstv. fjármálaráðherra. Þar áður ræddum við húsnæðisstuðning við ungt fólk sem líka virðist byggjast á æðisérstökum forsendum þar sem farið er með tölur um meðallaun í landinu og ekki horft til þess að miðgildi tekna unga fólksins, sem aðgerðin á að beinast að, er langt fyrir neðan þessi meðallaun. Eins og kom ágætlega fram í fréttum sjónvarps í gær er ansi ólíklegt að sú aðgerð skili árangri. Þetta eru stóru málin sem við höldum þing út af til að ríkisstjórnin geti lokið áætluninni og sínum mikilsverðu málum og ég verð að velta fyrir mér, herra forseti, hvort (Forseti hringir.) þetta þing þjóni þeim tilgangi sem ríkisstjórnin ætlaði. Ég hef allverulegar efasemdir um það eftir gærdaginn og í ljósi þess að á dagskrá í dag er mál um afnám hafta sem afnemur samt ekki höftin, herra forseti.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna