145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það er miður að stundum breytist þessi virðulega samkoma hér í einhvern skrípaleik. Það gerðist til dæmis í gær þegar hæstv. félagsmálaráðherra sat hjá í atkvæðagreiðslu um fjármálaáætlun ríkisstjórnar hennar. Þessi ágæti hæstv. félagsmálaráðherra hefur verið heldur sein í svifum á þessu kjörtímabili öllu, hún lagði fram húsnæðisfrumvörp í vor þegar hún hafði setið í þrjú ár þrátt fyrir að mikil vinna lægi á borði hennar þegar hún tók við. Hún kemur líka nú og segist vilja lengja fæðingarorlofið og hækka greiðslur í fæðingarorlofi sem er auðvitað nauðsynlegt en hún stóð að því að taka slík lög úr gildi þegar hún settist í ráðherrastól. Áttar fólk sig ekki á að því fylgir ábyrgð að vera í ráðherrastól? Það er ekki bara af því að mig langar til þess núna eða að ég ætla að vera með þessu núna. Þetta er alvarlegt mál.

Ég vil taka upp það sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sagði áðan: Ætlar þessi ágæti ráðherra í dag að flytja hér fjölskyldustefnu? Við hvað er þessi fjölskyldustefna miðuð? Barnabæturnar sem eru í fjármálaáætluninni? Eða er það þannig að ríkisstjórnin hafi heldur ekki samþykkt þessa fjölskyldustefnu hæstv. ráðherra?

Virðulegi forseti. Þetta er bara að verða grín.


Tengd mál